Vöruhúsið hlýtur Hvatningarverðlaun 2021
Embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafa tekið höndum saman um að veita árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin heita Íslensku menntaverðlaunin. Þau voru upprunalega stofnuð til að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli á því góða og metnaðarfulla starfi sem stundað er í skólum og frístundastarfi.
Hvatningarverðlaun 2021 voru að þessu sinni veitt Vöruhúsinu – miðstöð skapandi greina á Hornafirði. Vilhjálmur Magnússon forstöðumaður Vöruhússins, og stjórnarmaður Nýheima þekkingarseturs, tók á móti verðlaununum, ásamt Sigursteini Traustasyni iðkannda Vöruhússins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Vöruhúsið tók til starfa 2012 en þar er nú einstakur vettvangur til kennslu í nýsköpun, list- og verkgreina á öllum skólastigum. Þar er boðið upp á formlegt og óformlegt nám í handverki, hönnun og hugmyndavinnu, þar sem lögð er áhersla á þverfagleglega samvinnu. Meginmarkmið Vöruhússins eru meðal annars að efla verkþekkingu og menntun í verk- og tæknigreinum, kennslu og nám í list- og verkgreinunum, styðja við félagsstarf, vera opinn vettvangur til sköpunar, vinna að miðlun þekkingar og vera brú milli kynslóða. Í húsinu er fyrirmyndaraðstaða til kennslu í list- og verkgreinum. Þar er meðal annars myndmenntastofa, textílstofa, smíðastofa, málmsmíðastofa, fatahönnunarstofa, listastofa, ljósmyndastúdío, aðstaða til hljóðupptöku, tónlistarherbergi og síðast en ekki síst, vel búin Fab Lab hönnunarsmiðja. Í húsinu vinna jafnt nemendur, kennarar, listamenn, hönnuðir og frumkvöðlar og eru allir velkomnir!
Starfsfólk Nýheima þekkingarseturs er einstaklega stolt af samstarfsaðila okkar Villa, sem og Vöruhúsinu og óskum Hornfirðingum öllum innilega til hamingju með Vörushúsið og það góða starf sem þar er unnið. Eins og Villi segir: þangað [í Vöruhúsið] eru allir velkomnir. Verum jákvæð og skapandi!
Til hamingju!
Hér má sjá frá afhendingu Hvatingarverðlaunanna og viðtal við Villa, forstöðumann, á Rúv.