10 styrkir til Hornfirðinga
Haustúthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands fór fram nýverið. Mörg áhugaverð verkefni sóttu um styrk að þessu sinni og áttu Hornfirðingar 29 umsóknir af þeim 132 sem bárust í sjóðinn, eða um 22%.
Uppbyggingasjóður Suðurlands veitir verkefnastyrki í tveimur flokkum: atvinnuþróunar- og nýsköpunar og menningar. Alls bárust 48 umsóknir í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar, ellefu þeirra frá Hornafirðir, og 84 umsóknir í flokki menningar og áttu Hornfirðingar þar 18 umsóknir.
Að þessu sinni var 42 milljón króna úthlutað á Suðurlandi öllu, 20,8 m.kr. til 12 verkefna í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 21,2 m.kr. til 37 verkefna í flokki menningar. Samtals eru veittir styrkir til 49 verkefna, 10 hornfirsk verkefni hlutu styrk úr sjóðnum, þar af 1 verkefni í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 9 verkefni í flokki menningar. Samtals fengu hornfirsk verkefni úthlutað 6.485.000 krónur í styrk, eða um 15,5% af úthlutuðu fjármagni.
Fjöldi umsókna og styrkja frá Hornafirði er enn eitt merki um mikla grósku og skapandi kraft í samfélaginu. Einstaklingar, félagasamtök og stofnanir leggja fram metnaðarfullar hugmyndir sem styrkja menningu, atvinnulíf og samfélagslega þróun á svæðinu.
Nýheimar þekkingarsetur sinnir ráðgjöf og handleiðslu um Uppbyggingarsjóð Suðurlands fyrir sveitarfélagið. Við hvetjum alla sem vilja kynna sér sjóðinn, ræða verkefnahugmyndir eða fá aðstoð við umsóknarskrif til að hafa samband eða kíkja til okkar í Nýheima.
Hér má lesa meira um öll þau fjölbreyttu verkefni sem hlutu styrk úr haustúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands 2025









