12. ársfundur Nýheima þekkingarseturs

12. ársfundur Nýheima þekkingarseturs var haldinn í Nýheimum síðastliðinn miðvikudag, 9. apríl. Dr. Lilja Jóhannesdóttir, formaður stjórnar setursins, var fundarstjóri og flutti hún jafnframt skýrslu stjórnar. Hugrún Harpa, forstöðumaður setursins, sagði frá starfsemi setursins á árinu, helstu verkefnum auk þess sem hún kynnti ársreikning 2024.

Verkefnastjóri setursins, Eyrún Fríða, flutti erindi um verkefnið HeimaHöfn. Fór hún yfir framvindu verkefnisins á fyrsta ári þess. Verkefnið hefur farið afar vel af stað með fyrirtækjaheimsóknum, frumkvöðlafræðslu, kynningum, fyrirlestrum og vinnustofum með ungmennum í FAS og 10. bekk grunnskólans.

Verkefnið hefur með nýjum samningi við Sveitarfélagið Hornafjörð verið fest í sessi til næstu þriggja ára. Einnig hlaut verkefnið fimm milljóna króna styrk frá fjárlaganefnd til áframhaldandi þróunar og framkvæmdar verkefnisins og miðlunar til annarra samfélaga á landsbyggðinni. Næsti stóri viðburður verkefnisins verður málþing sem verður haldið í Nýheimum en til þess verður boðið fulltrúum sveitarfélaga á landsbyggðinni.