17 styrkir til Hornfirðinga
Vorúthlutun úr Uppbyggingasjóði Suðurlands var í vikunni, eða 8. apríl. Mörg áhugaverð verkefni sóttu um styrki að þessu sinni og áttu Hornfirðingar 28 umsóknir af þeim 122 sem bárust í sjóðinn eða um 23%. Uppbyggingasjóður Suðurlands veitir verkefnastyrki í tveimur flokkum, atvinnuþróun- og nýsköpun og menningu. Í heildina bárust 31 umsókn í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna, sex þeirra frá Hornafirði, og 91 í flokki menningarverkefna og áttu Hornfirðingar þar 22 umsóknir.
Að þessu sinni var 42.1 milljón króna úthlutað á Suðurlandi öllu, 16,3 m.kr. til 11 verkefna í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 25,8 m.kr. til 53 verkefna í flokki menningar. Samtals eru veittir styrkir til 64 verkefna. 17 hornfirsk verkefni hlutu styrki í þessari úthlutun, 14 menningarverkefni og þrjú í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunar. Samtals hlutu verkefnin sautján 11.150.000 krónur í styrk eða um 27% af úthlutuðu fjármagni.
Fjöldi umsókna og styrkja er til marks um þá miklu grósku sem er í samfélagi okkar. Einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki auðga samfélag okkar með verkefnum sínum og afar ánægjulegt er að sjá hversu margir nýta og njóta stuðnings sjóðsins.
Starfsfólk Nýheima þekkingarseturs eru ráðgjafar Uppbyggingarsjóðs í okkar sveitarfélagi. Við hvetjum alla sem vilja kynna sér sjóðinn, ræða verkefnahugmyndir og mögulegar umsóknir til þess að kíkja til okkar í Nýheima. Næsti umsóknarfrestur í sjóðinn er í október næstkomandi en hér má nálgast úthlutunarreglur sjóðsins: Úthlutunarreglur og mat á umsóknum – SASS
Hér má lesa meira um öll þau fjölbreyttu verkefni sem hlutu styrk úr vorúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands 2025.