Einyrkja- og frumkvöðlakaffi með Alice Sowa
Þriðjudaginn 27. maí síðastliðinn hittist áhugafólk um nýsköpun í Nýheimum á einyrkja- og frumkvöðlakaffi með Alice Sowa, stofnanda GRÆNALAUTAR ehf. Alice Sowa er iðnhönnuður og textíllistakona sem hefur verið búsett í Skaftafelli í Öræfum frá árinu 2023.
Í vorúthlutun Uppbyggingarsjóðs SASS fékk Grænalaut ehf styrk fyrir verkefnið Arctic Fibers en einnig hlaut Alice sjálf tvo styrki úr sömu úthlutun, annars vegar fyrir samfélagsverkefnið Öræfi Knitting group og hins vegar fyrir sýningarverkefnið Echoes of Ice.
Grænalaut ehf er nýsköpunarfyrirtæki sem hún stofnaði árið 2024 sem vinnur að því að tengja saman landbúnað og textíliðnað á sjálfbæran hátt. Alice sagði frá ferðalaginu sínu sem frumkvöðull á Íslandi og þeim spennandi verkefnum sem Grænalaut hefur tekið þátt í á undanförnum mánuðum, meðal annars Plöntumóti Hackathon, Gullegginu, Hringiðu, Womenture Pre-Accelerator Program og EU Spark for Climate
Hackathon.
Alice sagði sérstaklega frá þróun verkefnanna Ullarkögglar og Arctic Fibers, sem eru dæmi um verkefni sem hún hefur einbeitt sér að sem bæði stuðla að nýtingu íslensks hráefnis á skapandi og sjálfbæran hátt. Ullarkögglar hafa það að markmiði að bæta verðmæti við lággæða ull bænda og auðga jarðveginn okkar með lífrænum ullarkögglaáburði. Markmið Arctic Fibers er að umbreyta lúpínu þannig að úr verði aðgengilegt efni sem styður við hringrásarhagkerfi Íslands og hægt er að nota í textíltrefjar og fleira.
Við þökkum Alice kærlega fyrir heimsóknina og hvetjum frumkvöðla á öllum stigum til að fylgjast áfram með Alice og náttúrulega okkar viðburðum hér í Nýheimum þekkingarsetri!
Instagram: @alice_sowa og @arctic_fibers