Gróska – félagslandbúnaður
Nýheimar þekkingarsetur sótti um og hlaut styrk frá Matvælasjóði fyrir samstarfsverkefni setursins, Grósku, Fab Lab-smiðju Hornafjarðar og SASS. Frumkvæði að verkefninu áttu stjórnarmenn í félaginu Grósku sem stofnað var í þeim tilgangi að byggja upp félagslandbúnað í Sveitarfélaginu Hornafirði. Með því vill félagið stuðla að sjálfbærri og lífrænni ræktun á svæðinu í nánu samstarfi við matvælaframleiðendur.
Umsókn til Matvælasjóðs var vegna styrks fyrir fyrsta fasa stærra verkefnis sem hefur verið í mótun innan Grósku. Hugmyndin felur í sér að komið verði upp gróðurhúsi sem verði búið tölvustýrðu vökvunarkerfi sem hefur verið í þróun hjá Fab Lab-smiðju Hornafjarðar. Þar fari fram sjálfbær ræktun en einnig verði húsið nýtt til fræðslu og kennslu fyrir einstaklinga og nemendur í þeim tilgangi að miðla þekkingu á sjálfbærri ræktun til íbúa sveitarfélagsins.
Verkefnastjórar þekkingarsetursins vinna að hagkvæmnisathugun, markaðsrannsókn og gerð viðskiptaáætlunar sem verður afurð þessa fyrsta hluta verkefnisins. Samráð við íbúa, framleiðendur og skóla í sveitarfélaginu er mikilvægur liður í vinnunni og vonumst við til að eiga gott samstarf við þessa aðila um þróun og mótun verkefnisins. Vinna að verkefninu hófst í lok 2021 og eru áætluð lok þess í maí 2022. Verkefnastjórar eru Guðný Gígja Benediktsdóttir og Anna Ragnarsdóttir Pedersen.
Hægt er að lesa lokaskýrsluna hér fyrir neðan: