Komið er að verklokum í tveggja ára Erasmus+ verkefni setursins, Sustainable, sem fjallar um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í kennslu og daglegt líf. Samstarfsaðilar koma frá átta Evrópulöndum, auk Nýheima þekkingarseturs eru samstarfsstofnanir frá Svíþjóð, Belgíu, Írlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Spáni og Rúmeníu.
Innan verkefnisins hefur verið unnið að mótun fræðsluefnis með áherslu á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í eftirfarandi fjórum verkþáttum:
- Gerð handbókar um sjálfbærni og heimsmarkmiðin þar sem teknar eru saman staðreyndir og upplýsingar til hagnýtingar fyrir kennara og leiðbeinendur.
- Gerð leiðarvísis með leiðbeiningum um skref í átt til sjálfbærni, í einkalífi og faglegu starfi. Efnið mun nýtast leiðbeinendum og kennurum við að innleiða sjónarmið sjálfbærni í námsefni og námsumhverfi.
- Gerð námsefnis sem lýsir aðferðum og efnistökum sem styðja við sjálfbærni í formlegri, óformlegri og formlausri menntun. Hagnýtt efni fyrir kennara og leiðbeinendur til að auka vægi sjálfbærni í fræðslu og miðlun hvers konar
- Kennsluvefur sem hægt verður að skrá sig inná í gegnum heimasíðu verkefnisins. Þar verður allt efni verkefnisins gert aðgengilegt á öllum tungumálum samstarfsaðila.
Allar afurðir verkefnisins eru aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins, Sustainable (sustainable-project.eu)