Menning

Menningarstoð Nýheima þekkingarseturs

Nýheimar þekkingarsetur hefur að markmiði að efla menningarstarf á svæðinu með virkri miðlun og þátttöku íbúa í öndvegi. Leggur setrið áherslu á að gera Nýheima að vettvangi samfélagsins til samskipta og samveru. Einnig hefur setrið að markmiði að stuðla að auknum rannsóknum og miðlun upplýsinga á menningararfi svæðisins.

Setrið hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum á borð við starfastefnumót, Frístund – dag sjálfboðaliða og félagasamtaka á Hornafirði, ýmis námskeið, kynningar- og fræðsluviðburði o.fl. Þá hefur setrið lagt áherslu á að miðla þeim viðburðum sem haldnir hafa verið í Nýheimum og stutt við framkvæmd þeirra með samstarfi við stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.   

Menningarstofnanir Nýheima

Stofnanir innan Nýheima hafa með margvíslegum hætti auðgað menningu svæðisins með verkefnum sínum. Hafa þær staðið fyrir menningarviðburðum, unnið að rannsóknum og miðlun á menningararfi svæðisins og með ýmsum hætti unnið og komið að menningartengdum verkefnum á svæðinu.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar er í húsnæði Nýheima, innan Menningarmiðstöðvarinnar eru sex safnaeiningar ásamt rannsóknarsviði sem starfar þvert á einingarnar. Safneiningarnar eru byggða-, sjóminja-, náttúrugripa-, lista-, bóka- og héraðsskjalasafn.

Styrkir og ráðgjöf vegna menningarverkefna

Verkefnastjórar Nýheima þekkingarseturs hafa á grundvelli samstarfssamning setursins við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga sinnt þjónustu og ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja. Sú ráðgjöf er meðal annars á sviði menningarmála og veita ráðgjafar Nýheima aðstoð og ráðgjöf vegna styrkumsókna fyrir menningarverkefni til Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

Menning í Nýheimum

Ýmsir menningarviðburði eru haldnir í Nýheimum ár hvert, ýmist á vegum stofnana í húsinu eða ótengdra aðila er leigja aðstöðu hússins fyrir einstaka viðburði. Hægt er að fá húsnæðið leigt til viðburðahalds og má finna frekari upplýsingar um útleigu hússins hér: www.nyheimar.is/bokun-rymi