Nýsköpun

Nýsköpunarstoð Nýheima þekkingarseturs

Nýsköpun er ein fjögurra stoða Nýheima þekkingarseturs. Markmið setursins er að taka virkan þátt í mótun öflugs nýsköpunarumhverfis á Suðausturlandi, einkum með því að vera vettvangur skapandi samvinnu í nýsköpun á svæðinu og með samstarfi við helstu atvinnugreinar á Hornafirði, frumkvöðla af ýmsum toga og lista- og handverksfólk. Áhersla er lögð á að hvetja til frumkvöðla- og nýsköpunarstarfs með verkefnum, viðburðum, fræðslu og stuðningi við einstaklinga og atvinnulíf.

Verkefnastjórar þekkingarsetursins aðstoða umsækjendur við gerð umsókna í Uppbyggingarsjóð Suðurlands sem úthlutað er úr tvisvar á ári, bæði í nýsköpunar- og menningarverkefni.

Nýsköpunarnetið

Nýsköpunarnetið er samstarfsvettvangur Nýheima þekkingarseturs, Vöruhússins, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Háskólafélags Suðurlands. Markmið netsins er að efla nýsköpun í sveitarfélaginu með áherslu á frumkvöðla.

Eitt af helstu verkefnum Nýsköpunarnetsins var opnun frumkvöðlahreiðurs í Miðbæ á Höfn. Frumkvöðlahreiðrið er hluti af netverki fyrir frumkvöðla á Suðurlandi, undir forystu Háskólafélags Suðurlands. Sveitarfélagið útvegar aðstöðu hreiðursins en þekkingarsetrið veitir stuðning og ráðgjöf.

Meðal annarra verkefna Nýsköpunarnetsins er miðlun upplýsinga um nýsköpunarstuðning og vikulegt frumkvöðla- og einyrkjakaffi til að efla tengsl og hlusta á þarfir þátttakenda.

Nýsköpunarstofnanir Nýheima

Stofnanir innan Nýheima hafa unnið að margvíslegum nýsköpunarverkefnum. Vöruhúsið er vettvangur skapandi greina á Hornafirði í samvinnu Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og frumkvöðla. Í Vöruhúsinu geta einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki nýtt aðstöðuna, sótt sér þekkingu og treyst tengslanet sitt á sviði sköpunar.

Framhaldsskólinn hefur unnið að eflingu verk- og listnámsgreina, meðal annars í samstarfi við Vöruhúsið. Skólinn hefur einnig tekið þátt í verkefnum sem miða að því að auka veg frumkvöðlafræðslu.  

Mikil nýsköpun hefur verið í ferðaþjónustu á Suðausturlandi og hefur Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði unnið náið með ferðaþjónustuaðilum á því sviði.  

Fræðsluefni

Skapa.is

Skapa.is er nýsköpunargátt, upplýsingaveita og fræðsluvefur fyrir frumkvöðla og aðra aðila sem eru að stíga sín fyrstu skref í nýsköpunarumhverfinu. Nýsköpunargáttin er hugsuð sem stuðningur fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Með kortlagningu stuðningsumhverfis nýsköpunar hér á landi er öllum helstu upplýsingum safnað á einn stað.

Mikilvægi nýsköpunar í sjávarútveg

Föstudagshádegi í Nýheimum 13. desember 2020, hélt Guðmundur H. Gunnarsson fyrirlestur um Mikilvægi nýsköpunar í sjávarútvegi á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar.