Opnað hefur verið fyrir umsóknir í vorúthlutun Uppbyggingarsjóð Suðurlands 2024. Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og menningar á Suðurlandi. Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar eru það atvinnuskapandi og/eða framleiðniaukandi verkefni sem eiga kost á stuðningi ásamt nýsköpunarverkefnum sem efla fjölbreytileika atvinnulífs. Í flokki menningar er markmið að verkefni efli menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands byggir á Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024. Umsækjendum er bent á að kynna sér vel úthlutunarreglur sjóðsins, áherslur, markmið og mat á umsóknum sem eru aðgengilegar hér. Sjóðurinn er samkeppnissjóður sem þýðir að vel mótuð verkefni með skýrar og góðar umsóknir, eru líklegri til að hljóta styrki. Öll verkefni skulu uppfylla að lágmarki markmið sjóðsins í þeim flokki sem það tilheyrir, menningu eða atvinnu- og nýsköpun, og eina eða fleiri áherslu.
Í síðustu úthlutun sjóðsins hlutu 16 af 22 Hornfirskum verkefnum sem sóttu um styrk, flest voru þau í flokki menningarverkefna en styrkirnir námu samtals 6,5 mkr.
Starfsmenn setursins sinna ráðgjöf og handleiðslu um sjóðinn í samstarfi við SASS og er öllum velkomið að hafa samband (Kristín Vala / Kristinvala@nyheimar.is / 4708089) eða kíkja við í Nýheimum.
Tveir kynningafundir verða haldnir vegna umsóknaskrifa þriðjudaginn 20. febrúar, annars vegar í Nýheimum kl. 14 og svo í Hrollaugsstöðum, Suðursveit, sama dag kl. 20
Hverjum alla til að koma á kynningarfundina og heyra hverjir möguleikarnir eru.