Hvað er Menntahvöt Hornafjarðar?
Menntahvöt Hornafjarðar er nýtt samstarfsverkefni menntastofnana á Hornafirði sem hefur það að markmiði að styðja við menntun íbúa á Suðausturlandi. Verkefnið er leitt af Nýheimum þekkingarsetri en unnið í samstarfi við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, Fræðsluskrifstofu Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Háskólafélag Suðurlands, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi.
Markmið Menntahvatar er að styðja við íbúa svæðisins til að sækja sér menntun og fræðslu, óháð búsetu. Áhersla er lögð á að miðla upplýsingum um námstækifæri, hvetja fólk til náms og styðja stofnanir og fyrirtæki við að efla starfsþróun og endurmenntun starfsmanna. Samstarfsstofnanir Menntahvatar leggja jafnframt sitt af mörkum við að skapa tækifæri til náms á staðnum, ýmist með formlegum námsleiðum, stökum námsskeiðum og/eða aðstöðu til náms.
Einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á að kynna sér nánar tækifæri til náms og fræðslu er velkomið að hafa samband við starfsfólk Nýheima þekkingarseturs sem fulltrúa Menntahvatar Hornafjarðar.
Við bendum á að nýverið tók Nýheimar þekkingarsetur saman yfirlit um tækifæri til menntunar og námskeið í fjarnámi sem má finna hér: Tækifæri til menntunar, námskeið í fjarnámi. – Nýheimar (nyheimar.is)
Ef þið vitið um fleiri námskeið í fjarnámi sem ekki er getið í upptalningunni þá megið þið gjarnan láta okkur vita af því og við bætum þeim við.