HeimaHöfn málþing 

Mánudaginn 9. september boðaði starfsfólk Nýheima þekkingarseturs alla nemendur 9. og 10. bekkjar Grunnskóla Hornafjarðar auk allra staðnema FAS á málþing um stöðu þeirra og framtíð í Sveitarfélaginu Hornafirði.  Málþingið er liður í nýju verkefni setursins, HeimaHöfn, sem snýr að fræðslu og valdeflingu ungmenna í sveitarfélaginu.  

Verkefnið er unnið í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð og byggir á áralangri reynslu setursins í starfi með ungu fólki. Einnig var horft til rannsókna og þekkingar samstarfs- og fagaðila víða að.  Um þróunarverkefni er að ræða sem fjallar um ungt fólk og eflingu byggða. Horft er til þátta eins og samfélagsþátttöku, frístunda, menntunar og atvinnutækifæra á svæðinu. Verkefnið hófst samkvæmt samningi 1. mars 2024 en á þessu fyrsta starfsári verkefnisins er áhersla lögð á að víkka sjóndeildarhring ungmenna sem standa frammi fyrir stórum ákvörðunum um framtíð sína að námi loknu og kynna þeim fjölbreytt tækifæri í nærsamfélaginu.  

Málþingið var sett af Sigurjóni Andréssyni, bæjarstjóra, og eftir kynningu á verkefninu og fyrirkomulagi dagsins frá verkefnastjóra þess, Kristínu Völu, var nemendahópnum skipt upp í hópa. Dagskráin var stíf en um sex málstofur var að ræða sem hver um sig var með sérstakt þema sem tengist framtíð ungmennanna og áherslum HeimaHafnar. Meðal þess sem fjallað var um í málstofunum var félagslíf, samfélag, samskipti, framtíðin og störf, o.fl. Verið er að vinna úr gögnum og hugmyndum frá ungmennunum sem meðal annars verða kynntar bæjarráði sveitarfélagsins.  

Næstu skref í HeimaHöfn er áframhaldandi kynning á verkefninu til íbúa og hagaðila í samfélaginu, opnun heimasíðu verkefnisins og samtal við aðila úr atvinnulífinu á svæðinu um þátttöku í verkefninu. En eitt viðfangsefna verkefnisins er að sýna fram á fjölbreytt tækifæri til atvinnu innan sveitarfélagsins auk þess að kynna störf án staðsetningar og frumkvöðlastarf. Framtíðin er í sveitarfélaginu Hornafirði, fyrir öll sem það kjósa!