Frumkvöðladagur í Hornafirði – Frábær mæting og skapandi stemning!

Í gær, 12. september, stóð Nýsköpunarnet Hornafjarðar fyrir áhugaverðum frumkvöðladegi þar sem íbúum sveitarfélagsins bauðst tækifæri til að hitta nokkra af frumkvöðlum sveitarfélagsins og fræðast um störf þeirra. Mæting var góð og sköpuðust skemmtilegar umræður um nýsköpun, skapandi lausnir og atvinnutækifæri í Hornafirði.

Frumkvöðladagurinn hófst hjá Sindra, forstöðumanni Vöruhússins, þar sem gestir nutu léttra veitinga og fengu áhugaverða kynningu. Sindri sýndi þau fjölbreyttu tæki og tól sem almenningi standast til boða að nota í FabLab og sýnishorn af því sem hægt er að gera með þeim. Því næst var farið til Ómars, eiganda Sólskers ehf., en hann kynnti aðstöðu Matarsmiðjunnar á Höfn og þau tæki og aðgang sem í boði er. Einnig kynnti hann margverðlaunaðar vörur sínar, sagði frá þróun og vinnsluaðferðum þeirra og bauð upp á dýrindis smakk. Þá var haldið í Miklagarð þar sem listakonurnar Hanna Dís og Ragnheiður tóku á móti okkur á vinnustofum sínum. Hanna Dís sagði frá hönnunarferli sínu en hún vinnur mikið með leir, strá og ull auk þess að vera umhugað um nýtingu afurða. Einnig voru fjölbreyttir munir til sýnis á vinnustofu hennar. Á vinnustofu Ragnheiðar var hún með gjörning og sagði frá listaverkum sínum í Plastúru sem voru þar til sýnis. Einnig sýndi Ragnheiður Stúkusalinn sem hún hefur umsjón með og kynnti hugmyndafræðina bak við hann. Í Stúkusalnum voru til sýnis verk eftir gestalistamann, Dag Benedikt Reynisson, sem hefur afnot af salnum um þessar mundir en verk hans minna einna helst á sjónhverfingu. Dagurinn endaði á kynningu hjá Horn brugghús, þar sem farið var yfir bruggferlið og framtíðarplön Horn brugghús yfir dýrindis smakk af tönkunum. Þá sagði Elvar, eigandi staðarins, frá uppbyggingunni á gamla sláturhúsinu, sem heitir í dag Hepputorg.

Frumkvöðladagurinn endaði svo á Happy Hour á Heppu þar sem gestir og aðstandendur ræddu saman um daginn, frumkvöðlahugmyndir sínar og fleira.

Frumkvöðladagurinn var virkilega vel heppnaður og er óhætt að segja að Hornfirðingar séu ríkir af frumkvöðlum enda mikil nýsköpun í gangi í sveitarfélaginu. Nýsköpunarnet Hornafjarðar þakkar öllum sem mættu og frumkvöðlunum sem tóku á móti okkur fyrir þessa stórskemmtilegu upplifun.

Næsti viðburður hjá setrinu er  17. september kl. 14:00-16:00. Þá verður haldinn kynningarfundur og vinnustofa í umsóknargerð fyrir Uppbyggingarsjóð Suðurlands 2024!

Næstu viðburðir

No event found!
Load More