HeimaHöfn á Vísindadögum FAS

Mánudaginn 28. október hófust Vísindadagar í FAS, þar sem nemendur viku frá hefðbundnu námi og sneru sér að rannsóknarverkefnum sem styrkja tengsl þeirra við samfélagið. Verkefnið byggði á HeimaHöfn, samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar, sem hefur verið í gangi frá upphafi skólaárs. Verkefnið felur í sér náið samstarf við ungt fólk, fulltrúa úr atvinnulífinu, skóla og aðra lykilaðila á svæðinu.

Á vísindadögum fengu nemendur tækifæri til að kynnast starfsemi stofnana Nýheima og ýmissa starfsstöðva innan ráðhússins, ásamt sýslumanni. Í litlum hópum könnuðu nemendur dagleg störf þessara stofnana, menntun starfsfólksins og mikilvægi starfa þeirra fyrir samfélagið í heild. Verkefnið var þverfaglegt og byggir á STEAM-nálguninni, sem sameinar greinar á sviði vísinda, tækni, verkfræði, stærðfræði og lista með einu markmiði: að veita nemendum víðsýna þekkingu og innsýn í framtíðarmöguleika þeirra til atvinnu í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Nemendahóparnir öfluðu sér heimilda um sín viðfangsefni, heimsóttu starfsstöðvar til að safna frekari upplýsingum og taka viðtöl við starfsfólk. Þau fengu þannig beina innsýn í sérhæfð störf háskólamenntaðra í samfélaginu, áður en þau tóku til við að búa til stutt myndband um upplifun sína og niðurstöður.

Á lokadegi vísindadaganna voru lokaafurðir nemenda sýndar samnemendum, kennurum og fulltrúum þeirra stofnana sem tóku þátt. Nemendahóparnir gerðu öll myndband sem sagði frá hverri stofnun, hvað þau gera, hvernig menntun viðkomandi er með ásamt því hvort og hvernig störfin tengjast STEAM.

Hægt er að sjá myndböndin hér: