\"Opposing

Af hugmyndum ungmenna um samfélagið og skólann

Áfanganiðurstöður Mótstöðuafls

Síðastliðið haust fór af stað tveggja ára verkefni á vegum Þekkingarsetursins Nýheima sem kallast Mótstöðuafl (e. Opposing Force). Verkefnið er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni, stutt af Evrópusambandinu, og viðfangsefnið ungt fólk og atgervisflótti. Verkefnið er tvíþætt: Annars vegar valdefling ungmenna; og hins vegar viðhorfskönnun meðal ungs fólks. Valdeflingin hér var í formi jafningjafræðslu þar sem efnistökin voru jafnrétti kynjanna og staðalmyndir. Viðhorfskönnunin fór fram með viðtölum við ungt fólk þar sem innt var eftir viðhorfum þátttakenda til virkni í samfélaginu, atvinnutækifæra og menntunarkosta í heimabyggð.

Jafningjafræðsla byggir á þeirri hugmyndafræði að hópur ungmenna kafar ofan í tiltekið málefni, í þessu tilfelli jafnrétti, og undirbýr sig til að fræða jafningja sína um efnið. 12 hornfirsk ungmenni frá FAS tóku þátt í námskeiðinu sem stóð í 6 vikur. Síðan þá hefur hópurinn frætt nemendur í 10. bekk Heppuskóla, heimsótt Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Nýheimum, og fyrirhugar að fræða´97 og ´98 árgangana í FAS. Þá má rekja stofnun Hinseginfélags FAS og Femínistafélags FAS – FemFAS til hópsins, hvoru tveggja jafnréttismálefni. Á dögunum var svo haldið manneskjubókasafn í Nýheimum sem fékk góða aðsókn og undirtektir. Tilgangurinn með menneskjubókasafni er einmitt að takast á við fordóma og ranghugmyndir.

Um niðurstöður viðhorfskönnunarinnar má segja að viðhorf ungmenna í Hornafirði séu nokkuð einróma. Þar kemur skýrt fram að samfélagsleg virkni sé takmörkuð, mest í tengslum við framhaldsskólann. Þau upplifa litla eftirspurn eftir þátttöku eða hugmyndum þeirra um málefni sveitarfélagsins eða viðburði í samfélaginu á Höfn. Hvatning til þátttöku sé af skorunum skammti og að upplýsingar berist ekki til þeirra. Spurð um atvinnutækifæri og möguleika til að hasla sér völl innan fyrirtækja í Hornfirði þá telur unga fólkið að möguleikarnir séu litlir fyrir utan tiltekin hóp tengdan fyrirtækjunum fjölskylduböndum. Innt eftir hugmyndum þeirra um tækifæri til menntunar í Hornafirði kemur fram að FAS stendur styrkum fótum í hugum ungs fólk. Skólin hefur á sér jákvæða og eftirsóknarverða ímynd – það er almennt eftirsóknarvert að sækja FAS og foreldrar hvetja börn sín til að fara þangað. Þá kemur sterklega fram að skólinn er forsenda félagslífs ungs fólks. Um möguleika til háskólanáms í Hornafirði þá virðist ungt fólk hvorki vera vel upplýst um þá kosti eða hafa áhuga á því. Öðru máli gegnir hins vegar um þá sem nú þegar eru á atvinnumarkaði. Þeir virðast jákvæðari fyrir háskólanámi í heimabyggð, gjarnan samhliða starfi.

Af áfanganiðurstöðum verkefnisins að dæma þá er valdeflingar og hvatningar þörf meðal ungmenna í Hornafirði. Jafningjafræðslan hefur ýtt undir gerjun og róttækni meðal ungs fólks sem hefur áhuga á að láta til sín taka með þátttöku og aðgerðum. Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar gefa einmitt til kynna að ungt fólk sé almennt félagslega óvirkt og utangáttar í félagslífi fyrir utan framhaldsskólann. Í niðurstöðunum eru einnig vísbendingar um að ungt fólk upplifi ójöfn og takmörkuð tækifæri til atvinnu í bænum og sjái ekki þá möguleika sem eru fyrir hendi. Öllu ánægjulegra er hin jákvæða mynd sem FAS hefur meðal ungra íbúa í Hornafirði.

Næstu skref er síðari hrina valdeflingar á haustmánuðum en ekki verður ráðist í frekari viðhorfskönnun í tengslum við verkefnið. Hins vegar hefur Mótstöðuafl getið af sér annað verkefni sem kallast Lýðræðisvitund og valdefling ungmenna á landsbyggðinni og felur í sér ítarlega könnun á þörf fyrir valdeflingu og fræðslu. Það verkefni hlaut styrk frá Byggðarsjóði og búist er við að verkefnið hefjist einnig á haustmánuðum.

\"Mynd