Árleg ráðstefna um íslenska þjóðfélagsfræði sem haldin hefur verið víðsvegar um landið verður nú í Nýheimum á Höfn dagana 13. og 14. október.

Á ráðstefnunni gefst einstakt tækifæri til að hlýða á fjölda fræðimanna kynna rannsóknir sínar á hinum ýmsu málefnum þjóðfélagsins.

Erindi ráðstefnunnar eru fjölbreytt; menntun, trú, byggðaþróun, ferðaþjónusta og hnattvæðing eru aðeins nokkur dæmi um viðfangsefni erindanna sem flutt verða.

Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði, og Hornfirðingurinn Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, flytja inngangsfyrirlestra ráðstefnunnar.

 

Ráðstefnan er opin öllum og aðgangur ókeypis, ekki er nauðsynlegt að sitja ráðstefnuna í heild sinni.

Gestum er frjálst að koma til að hlusta á ákveðnar málstofur eða einstök erindi sem höfða sérstaklega til þeirra.

Dagskrá ráðstefnunnar birtist í Eystrahorni og hana má einnig finna á Facebook síðu Nýheima þekkingarseturs.

 

Eitt af meginmarkmiðum Nýheima er að auka tækifæri íbúa til þátttöku í hvers konar viðburðum og verkefnum á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna.

Vonumst við því til þess að sem flestir nýti sér það tækifæri sem hér gefst til þess að hlýða á fjölbreytt og áhugaverð erindi um íslenskt samfélag.

 

Sjáumst í Nýheimum.

Hugrún Harpa

Forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs

\"\"