Hugrún Harpa og Kristín Vala, starfsmenn Nýheima þekkingarseturs og byggðaþróunarfulltrúar svæðisins, sóttu Öræfinga heim í gærkvöldi og héldu kynningarfund í Hofgarði um nýja stöðu byggðaþróunarfulltrúa SASS (Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga) og Uppbyggingarsjóð Suðurlands.
Fámennt en góðmennt var á fundinum en góðar umræður sköpuðust meðal viðstaddra um tækifæri og mannlíf í Öræfunum en Öræfingar þekkja margir sjóðinn vel enda hafa mörg verkefni orðið að veruleika með stuðningi Uppbyggingasjóðs í sveitinni.
Sambærilegur fundur var haldinn í Nýheimum þekkingarsetri í hádeginu í dag, þar voru heldur fleiri gestir og gaman að fá marga unga gesti í salinn.
Við hvetjum alla til að kynna sér úthlutunarreglur, markmið, áherslur og matsþætti sjóðsins (hér) en umsóknarfrestur er tvisvar á ári, nú 3. október kl.16:00 og svo aftur í mars. Sjóðurinn veitir verkefnastyrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar annars vegar og menningarmála hinsvegar. Öllum lögaðilum með lögheimili á Suðurlandi er heimilt að sækja um sjóðinn. Nánar má lesa um sjóðinn á vef SASS.
Hugrún Harpa og Kristín Vala veita ráðgjöf og handleiðslu um verkefnaþróun og styrkumsóknir á skrifstofum sínum í Nýheimum, hægt er að bóka símtal, fund eða yfirlestur umsókna, eða hvað sem hentar hverjum og einum. Endilega hafið samband!
Upplýsingar um sjóðinn eru einnig aðgengilegar á ensku fyrir áhugasama: Uppbyggingarsjóður – English – SASS