FabStelpur og tækni

Verkefnið Fab stelpur og tækni snýst um að auka áhuga stúlkna á aldrinum 14 – 20 ára á að nýta Fab Lab-smiðjur og læra á stafræn tæki í tengslum við sitt áhugasvið. Enn fremur að fræða ungar stúlkur um heim tækninnar og fjölbreytta möguleika tæknináms og starfa í tækniiðnaði. Einnig snýst verkefnið um að brjóta niður staðalímyndir og hvetja ungar stúlkur til að vera virkar á sviði nýsköpunar og tækniþróunar. Verkefnið er fræðslusamstarf Vöruhússins/Fab Lab, grunn- og framhaldsskóla í Hornafirði og Nýheima þekkingarseturs.

Nýheimar þekkingarsetur og Vöruhúsið sóttu um og hlutu styrk fyrir verkefnið úr Lóu- nýsköpunarsjóði landsbyggðarinnar. Verkefnið hófst á haustmánuðum með þróun námskeiðs og námskeiðsgagna auk þess sem haldið var prufunámskeið með stúlkum á framhaldsskólaaldri. Á námskeiðinu lærðu þátttakendur meðal annars að vinna með þrívíddargögn og prenta út í þrívíddarprentara, teikna í vektor teikniforritinu Inscape og skera út í laserskera. Einnig fengu þátttakendur fræðslu um Arduino-iðntölvur, lærðu um RGB LED borða og hvernig má stýra þeim með iðntölvu. Fyrir utan þessa fræðslu fengu þátttakendur kynningar um kvenkyns fyrirmyndir, bæði íslenskar og erlendar. Þátttakendur á námskeiðinu bjuggu til sinn eigin LED plexilampa.