Frábær heimsókn frá Evrópurútunni!
Þann 19. september heimsótti Evrópurútan Höfn sem hluti af ferð sinni um landið í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá því að samningur um Evrópska efnahagssvæðisins (EES) tók gildi. Markmiðið með ferðinni er að kynna þau tækifæri og styrki sem bjóðast í evrópsku samstarfi fyrir stofnanir, fyrirtæki, skóla og samtök á landsbyggðinni.
Gestir fengu að heyra stutta kynningu frá fulltrúum Rannís á helstu samstarfsáætlunum, þar á meðal Erasmus+, Horizon Europe, Creative Europe og fleiri. Einnig kynnti Kristín Vala þau verkefni sem Nýheimar hafa tekið þátt í og hvernig evrópskir styrkir hafa verið nýttir á staðnum.
Að kynningunum loknum átti sér stað gott samtal við gestina um þau tækifæri sem eru til staðar og hvaða áætlanir gætu hentað þeim best. Fulltrúar Rannís svöruðu fjölmörgum spurningum og leiðbeindu viðstadda um hvernig og hvaða styrki er hægt að sækja um til framtíðarverkefna.
Við viljum þakka Rannís kærlega fyrir komuna, sem og gestunum sem mættu og tóku þátt í áhugaverðum umræðum.