Frístund 2025

Nýheimar Þekkingarsetur stóð fyrir samfélagsviðburðinum Frístund 13. september síðastliðinn. 33 félagsamtök og klúbbar tóku þátt í deginum með okkur sem fram fór í Nýheimum á báðum hæðum.

Í Sveitarfélaginu Hornafirði starfa samanlagt tæplega 80 félagsamtök og klúbbar. Viðburðinum er ætlað að vekja athygli á þessu góða starfi með lifandi og persónulegri kynningu, en jafnframt stuðla að aukinni þáttöku, virkni og vellíðan íbúa. 24 klúbbar/samtök eru starfandi á sviði lista og handverks, þar má meðal annars nefna sex kóra. Fimm lífsskoðunarfélög eru á svæðinu. 26 mismunandi tækifæri eru til íþróttaiðkunar, þar með talin eru ellefu innan Sindra. Þrír stjórnmálaflokkar eru starfræktir og nítján sjálfboðaliðasamtök. Það er því sannarlega fjölbreytt starf og margskonar dægradvöl í boði í sveitarfélaginu okkar.

Frístund hefur verið haldin einu sinni áður, árið 2018. Í ár var sérstök áhersla á að ná til ungs fólks og fólks sem hefur íslensku ekki að móðurmáli. Áhersla HeimaHafnar í ár er á samfélagsþátttöku. Þess vegna var haustið valið sem tímasetning fyrir Frístund – í upphafi annars árs HeimaHafnar, byggðaþróunarverkefni Nýheima Þekkingarseturs sem sniðið er að ungu fólki. Erlendir íbúar sveitarfélagsins eru verulegur hluti af samfélaginu okkar, nú rúmlega 30% af heildarfjölda íbúa í sveitarfélaginu. Það var virkilega ánægjulegt að fá til liðs við okkur þrjá aðila úr þeim hópi til þátttöku í Frístund sem öll hafa búið hér í þónokkurn tíma og ákveðið að stofna klúbba í tengslum við sín áhugamál og lífstíl, The Sealions, Prjóna- og handverkshóp Öræfa og Playing into belonging.

Nýheimar Þekkingarsetur þakkar öllum þátttakendum fyrir sitt innlegg og íbúum fyrir að gera þennan dag að líflegri samkomu! Kvennakór Hornafjarðar þökkum við kærlega fyrir vöfflubaksturinn.