Þann 20. október 2018 var haldinn dagur sjálfboðaliða- og félagasamtaka á Höfn í Hornafirði, Frístund.
Fyrirmynd dagsins var Starfamessa sem haldin var á Höfn haustið 2016 og byggði auk þess á niðurstöðum rýnihópa ungs fólks á Hornafirði í tengslum við verkefnið LUV – Lýðræðisvitund og valdefling ungs fólks sem Nýheimar þekkingarsetur vann sama ár. Þar kom fram að ungt fólk telur sjálfboðaliðastörf eftirsóknarverð og vel metin innan samfélagsins. Hins vegar kom fram að hópurinn telur sig hafa litla vitneskju um tækifæri sín til þátttöku í hvers konar félagsstarfi í heimabyggð.
Fjölbreytt starf sjálfboðaliða- og félagasamtaka er í boði í sveitarfélaginu og er viðburðinum ætlað að vekja athygli á því góða starfi með lifandi og persónulegri kynningu fyrir alla íbúa Hornafjarðar. Þá gafst samtökunum tækifæri til að kynna starf sitt og auka þekkingu íbúa á tækifærum til þátttöku.
Markmið FRÍSTUNDAR voru eftirfarandi:
- Draga fram og kynna margbreytileika sjálfboðaliða- og félagasamtaka í sveitarfélaginu
- Skapa vettvang fyrir sjálfboðaliða- og félagasamtök til að kynna starf sitt
- Skapa umræðu um þátttöku íbúa í sjálfboðaliða- og félagastörfum í sveitarfélaginu
- Stuðla að aukinni þátttöku og virkni íbúa
- Svara kalli ungmenna um aðgengi og boð til þátttöku
Það gekk vonum framar að fá félagasamtök til þátttöku í viðburðinum, alls tóku þátt 33 félagasamtök, sum með sameiginlega bása.
Verkefnastjóri: Kristín Vala