Góð þátttaka á grunnnámskeiði í gervigreind
Síðastliðinn þriðjudag stóð Nýheimar þekkingarsetur fyrir grunnnámskeiði í gervigreind sem ætlað var byrjendum. Um fimmtán manns mættu í Nýheima þar sem markmiðið var að kynna fyrir þátttakendum hvað gervigreind er, hvernig hún virkar og getur nýst í daglegu lífi, vinnu og námi.
Á námskeiðinu fengu þátttakendur að kynnast því hvernig gervigreind virkar á einfaldan og hagnýtan hátt. Kynnt voru tól eins og ChatGPT og DALL·E og þátttakendur fengu tækifæri til að prófa sig áfram í texta- og myndagerð með gervigreind.
Þátttakendur voru á ýmsum aldri og komu úr ólíkum áttum. Mikil ánægja var með námskeiðið og enginn skortur á áhuga á að prófa sig áfram með gervigreind. Verklegi hlutinn tókst einstaklega vel. Fólk var fljótt að læra á ChatGPT og fyrr en varði var spjallið komið í fullan gang. Mörg byrjuðu strax að spyrja spurninga, biðja um texta, lista og ráðleggingar – og voru greinilega snögg að sjá möguleikana.
Góð umræða skapaðist um möguleika og áskoranir sem tengjast tækninni. Þátttakendur deildu eigin reynslu og vangaveltum og ljóst að áhuginn var mikill. Mörg sögðu námskeiðið hafa hjálpað þeim að losna við óöryggi gagnvart tækninni og þau væru nú tilbúin að halda áfram að læra og nýta gervigreind í sínu lífi. Þátttakendur fóru heim með fullt af hugmyndum og eftirvæntingu fyrir frekari notkun á verkfærum gervigreindar í daglegu lífi.
Það kom skemmtilega á óvart hversu margir þátttakendur lýstu yfir áhuga á framhaldsnámskeiði í haust. Greinileg eftirspurn er eftir frekari fræðslu og æfingu í notkun gervigreindar.
Við hjá Nýheimum þekkingarsetri þökkum öllum sem mættu og hlökkum til að bjóða upp á áframhaldandi fræðslu á sviði gervigreindar!