Undanfarin ár hefur Nýheimar þekkingarsetur haft umsjón um námsaðstöðu og fjarpróf háskólanema í Hornafirði í húsnæði Nýheima.
Það er okkur mikið kappsmál að gera háskólanám sem aðgengilegast fyrir alla, hvort sem er í staðar- eða fjarnámi.
Í dag lauk síðasta prófi haustannar og hafa alls 76 próf verið lögð fyrir háskólanema í Nýheimum vegna haustannar 2019. 10 lotu- eða miðannapróf voru lögð fyrir á haustmánuðum, 56 lokapróf í desember og 10 sjúkra- eða upptökupróf nú í janúar.
Flestir próftakar í Nýheimum stunda nám sitt við Háskólann á Akureyri en einnig höfum við þjónustað nema frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Hólum, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst. Háskólanemarnir eru ýmist í fjarnámi og búa í Hornafirði eða hafa flutt milli landsvæða vegna staðarnáms en nýta tækifærið að koma fyrr heim í jóla- eða sumarfrí og taka lokapróf frá Nýheimum.
Allir háskólanemar eru velkomnir í Nýheima en verið er að endurnýja lesrými og bæta við aðstöðuna og verður því vonandi lokið í enda janúar, þangað til er aðstaðan þó enn opin og aðgengileg. Eftirfarandi þjónusta er í boði fyrir háskólanema:
aðgangur að Nýheimum, lesrými, læstum skáp, eldhúsi, kaffistofu, mötuneyti FAS, interneti
og fundaraðstöðu í samráði við verkefnastjóra, auk þess öll umsjón með fjarprófum annarinnar í samvinnu við háskóla landsins.
Þeir nemar sem vilja nýta sér aðstöðuna skulu gera námsaðstöðusamning við Nýheima þekkingarsetur en aðstaðan er nemum að kostnaðarlausu á opnunartíma Nýheima.
Fyrri þá nema sem vilja nýta sér húsnæði Nýheima utan opnunartíma, þ.e.a.s. kvöld, helgar og helgidagar, er í boði að leigja lykil að aðstöðunni gegn greiðslu tryggingar að upphæð 5.000 kr.
Gjaldtaka vegna fjarprófa er 4.000 kr. hvert próf, þó að hámarki 16.000 kr. á önn.
Þegar kemur að lokaprófum hefur þekkingarsetrið gert samstarfssamning við Fræðslunet Suðurlands og Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu um frekari aðstöðu vegna próftöku og mun því fara vel um alla fjarnema.
Bókasafn Hornafjarðar er einnig til húsa í Nýheimum og í góðu samstarfi við nema. Þar gefst öllum kostur á að eignast bókasafnskort og fá almenna bókasafnsaðstoð, m.a. vegna heimildaleitar, millisafnaláns, prentunar, ofl.
Umsjón með þjónustu við háskólanema hefur Kristín Vala, verkefnastjóri Nýheima þekkingarseturs.
Hún tekur vel á móti öllum á skrifstofu sinni og svarar fyrirspurnum gegnum tölvupóst á kristinvala@nyheimar.is.
Við hvetjum alla háskólanema til þess að kynna sér þessa aðstöðu sem í boðið er í Nýheimum.