Haustúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands
Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður sem rekinn er af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Sjóðurinn styrkir sunnlensk verkefni á sviði menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar vor og haust ár hvert. Umsóknarfrestur í sjóðinn rann út þann 2. október síðastliðinn fyrir haustúthlutun ársins.
Starfsmenn setursins, Hugrún Harpa og Kristín Vala, sinna ráðgjöf um sjóðinn sem byggðaþróunarfulltrúar SASS í sveitarfélaginu Hornafirði eftir að ráðgjafahlutverk SASS var endurskilgreint og Guðrún Ásdís fyrrum starfsmaður setursins og ráðgjafi SASS lét af störfum.
Metþátttaka var meðal Hornfirðinga í október í fyrra þegar 22 umsóknir bárust í sjóðinn og kom því skemmtilega á óvart þegar 27 umsóknir bárust í vorúthlutun sjóðsins í mars sl. Umsóknir úr sveitarfélaginu Hornafirði voru heldur færri að sinni en 18 umsóknir bárust, það er þó í samræmi við fækkun umsókna yfir allt Suðurland en í vor bárust 134 umsóknir en nú voru þær 86. Hornfirðingar áttu 20,1% umsókna í sjóðinn síðastliðið vor en nú í haust eru þær 20,9% allra umsókna á Suðurlandi.
Heildarfjöldi umsókna var eins og fyrr segir 86 en af þeim voru 24 í flokki atvinnu- og nýsköpunar, þar sem 4 umsóknir komu frá sveitarfélaginu Hornafirði, eða tæplega 17% umsókna. Í flokki menningar voru 64 umsóknir, þar af 14 frá sveitarfélaginu Hornafirði, eða tæp 22%.
Uppbyggingarsjóður hefur verið mikilvægur stuðningsaðili við atvinnuþróun og menningarstarf á Suðurlandi og sérstaklega jákvætt að sjá fjölbreyttar umsóknir frá sveitarfélaginu Hornafirði sem sýnir fram á mikla grósku og metnaðarfullt starf á okkar svæði.
Óháð fagráð meta nú umsóknir sem bárust sjóðnum en styrkúthlutunum úr sjóðnum er að vænta 6. nóvember. Allir umsækjendur fá þá sendan tölvupóst um niðurstöðu fagráðs og stjórnar SASS. Allir styrkhafar hafa svo samband við byggðaþróunarfulltrúa og ganga frá samningi um styrkinn en einnig hvetjum við þá sem ekki hljóta styrk að sinni að hafa samband og þróa hugmyndir sínar áfram fyrir næstu úthlutun.
Sjóðurinn byggir á Sóknaráætlun Suðurlands en núverandi áætlun gildir út árið 2024 og er vinna við mótun nýrrar og uppfærðrar Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir árin 2025-2029 komin á fullt. Vinna við rýnihópa er nú þegar í gangi og má gera ráð fyrir drögum að nýrri áætlun í samráðsgátt í nóvember. Gera má ráð fyrir að einhverjar breytingar verði því á úthlutunarreglum Uppbyggingarsjóðs Suðurlands í samræmi við áherslur Sóknaráætlunar Suðurlands til 2029.
Ert þú með hugmynd sem þú vilt gera að veruleika eða ertu á fyrstu skrefunum með eigið fyrirtæki?
Þann 13. nóvember næstkomandi blásum við til vinnustofu fyrir alla þá sem vilja kynnast nýsköpun og frumkvöðlaferlinu, Frumkvöðull í eina kvöldstund. Þátttakendur fá tækifæri til að efla þekkingu sína, spegla eigin hugmyndir og móta áætlun um næstu skref.
Stjórnandi vinnustofunnar er Svava Björk Ólafsdóttir, sérfræðingur í nýsköpun og vistkerfi nýsköpunar. Svava Björk hefur yfir 12 ára reynslu úr stuðningsumhverfinu og hefur þróað og keyrt fjöldann allan af hröðlum og öðrum stuðningsverkefnum fyrir frumkvöðla og fjárfesta á Íslandi. Hún er stofnandi RATA, stofnandi og framkvæmdastjóri IceBAN (Iceland Business Angel Network), stofnandi Hugmyndasmiða og Angel Ambassador hjá Nordic Ignite.