HeimaHöfn hlýtur styrk

HeimaHafnar verkefnið er rétt að byrja en hefur farið vel af stað. Það er ærin vinna að hrinda af stað verkefni af þessari stærðargráðu en sá áhugi og stuðningur sem verkefnastjórum hefur verið sýndur er mikill hvati um áframhaldandi gott samstarf ólíkra aðila. Þátttaka samfélagsins alls er forsenda þess að markmiðum verkefnisins um eflingu byggðar verði náð, ungmennum og samfélaginu öllu til góða. 

Verkefnið hefur þegar vakið verðskuldaða athygli og hefur verið kynnt fyrir fulltrúum sveitarfélaga á landsbyggðinni sem og út fyrir landssteinana. HeimaHöfn er fyrsta íslenska byggðaþróunarverkefnið sem unnið er með svo heildstæðum hætti og kjarnast um ungt fólk og eflingu byggðar. Um er að ræða hagnýtt þróunarverkefni sem Hornfirðingar geta verið stoltir af og fyrirmynd annarra landsbyggðarsamfélaga. 

Líkt og gjarnan er með hugsjónastarf þá getur fjármögnun verið stór hindrun. HeimaHöfn er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem hafa, þetta fyrsta ár verkefnisins, sameinast um að fjármagna 50% stöðu verkefnastjóra sem hefur verið á höndum þekkingarsetursins. Fjármögnun verkefnisins til framtíðar er forsenda þess að hægt verði að sinna verkefninu af krafti og tryggja framgang þess. Í vikunni bárust þær gleðifréttir að fjárlaganefnd hefur ákveðið að styrkja verkefnið um fimm milljónir króna. Stuðningurinn er ómetanlegur og tryggir áframhaldandi þróun og framkvæmd verkefnisins næsta árið. Viljum við nýta þetta tækifæri og miklu viðurkenningu og hvetja nærsamfélagið til að styðja verkefnið í verki og skrá sig til þátttöku hjá verkefnastjóra þess, Kristínu Völu (kristinvala@nyheimar.is).