HeimaHöfn kynnir fjölbreytt tækifæri í ferðaþjónstu
Þann 20. febrúar síðastliðinn komu saman nemendur FAS til að heyra frá þeim tækifærum sem geta falist í ferðaþjónustu á svæðinu. Viðburðurinn var hluti af verkefninu HeimaHöfn þar sem unnið er að því að efla þekkingu ungmenna á samfélaginu sínu, opna augu þeirra gagnvart tækifærum á svæðinu og hvetja þau til að íhuga sveitarfélagið sem framtíðar búsetukost.
Viðburðurinn var haldinn á Heppu þar sem nemendur og kennarar fengu að gæða sér á veitingum á meðan þau hlustuðu á þrjú erindi um ferðaþjónustu.
Áhersla var lögð á draga fram öll þau fjölbreyttu verkefni sem geta fallið undir ferðaþjónustu en eru kannski ekki greinileg og sýnileg gagnvart öðrum.
Steinunn Hödd, þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, kynnti nýja Náttúruverndarstofnun og þau ólíku störf sem unnin eru, bæði á svæðinu en einnig óháð staðsetningu. Hún ræddi fjölbreytt störf bæði landvarða og þjóðgarðsvarða en einnig þá staðreynd að innan stofnunarinnar eru fjölmörg störf unnin án staðsetningar. Á starfsstöð stofnunarinnar á Höfn starfa t.a.m. 4 starfsmenn á miðlægri skrifstofu og sinna verkefnum fyrir allt landið.
Haukur Ingi, eigandi Glacier Adventure, kynnti starfsemi fyrirtækisins og hvernig hún hefði þróast í gegnum árin. Hann ræddi um þau gildi sem fyrirtækið starfaði eftir og áherslur þess á að efla starfsemi og tengslamyndun í heimabyggð. Þá fór hann einnig yfir það hvernig þau hafa með opnum hug náð að stofna til samstarfs við ýmsa aðila, öllum til hagsbóta.
Að lokum fengu þau kynningu frá Unu Guðjónsdóttur, hótelstjóra á Hótel Jökli. Una hefur bakgrunn í fatahönnun en útskýrði fyrir þeim að öll reynsla getur nýst. Hennar nám í fatahönnun snertir ekki með beinum hætti rekstur á hóteli en úr náminu og fyrri reynslu tekur hún samt ýmsa þekkingu og fróðleik sem nýtist í starfi. Hún lagði áherslu á að þeirra framtíðar námsval mun alltaf koma að góðum notum, sama hvaða nám og hvaða starfsvettvang þau velja sér.
Í lok fyrirlestranna tóku nemendur þátt í spurningakeppni um starfsemi fyrirtækjanna og HeimaHafnar verkefnið. Í boði voru vinningar frá Glacier Adventure, Heppu og Hafnarbúðinni.
Við þökkum fyrirlesurum, fyrirtækjum og nemendum og starfsfólki FAS kærlega fyrir góðan og fróðlegan dag.