Hornafjörður, náttúrulega!

Hornafjörður náttúrulega er verkefni á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem felur í sér innleiðingu samnefndrar heildarstefnu í starf allra stofnana sveitarfélagsins. Stefnan byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en fjórar stoðir stefnunnar eru umhverfis- og loftslagsmál, félagslegir þættir, hagsæld og stjórnarhættir.

Þekkingarsetrið fór með verkefnastjórn og vann að verkefninu í nánu samstarfi við sviðsstjóra sveitarfélagsins og starfsfólk stofnana. Fyrsta ár verkefnisins var helgað vitundarvakningu um áherslur stefnunnar innan stofnana og nærsamfélagsins. Við upphaf verkefnisins var haldin vinnustofa með fulltrúum allra stofnana þar sem stoðir stefnunnar voru rýndar og gerðar tillögur að mögulegum aðgerðum ólíkra stofnana. Í kjölfarið voru haldnir vinnufundir í hverri stofnun þar sem starfsfólk valdi megin áherslur sinnar stofnunar innan hverrar stoðar.

Fjórir átaksmánuðir voru haldnir yfir árið sem hver fyrir sig var helgaður einni stoð stefnunnar. Í hverjum þeirra var mikið lagt upp úr því að kynna og miðla áherslum Hornafjörður náttúrulega til starfsfólks og íbúa. Stofnanir unnu að sínum aðgerðum auk þess sem haldin voru fjölbreytt fræðsluerindi fyrir starfsfólk þeirra. Verkefnastjórar unnu einnig að miðlun til íbúa með fjölbreyttum hætti og stóð verkefnið jafnframt fyrir viðburðum og fræðsluerindum fyrir íbúa.

Verkefnið byrjaði árið 2023 og framhald verður á verkefninu á árinu 2024 og unnið frekar að innleiðingu stefnunnar. Verkefnastjórar setursins munu áfram leiða verkefnið.

Nánar um verkefnið: www.hornafjordur.is/natturulega/