Nú líður að lokum SPECIAL verkefnisins sem hófst haustið 2021. Verkefnið miðar að því að styrkja, endurvekja og hlúa að „lífsleikni“ og „mjúkri“ færni ungs fólks sem hvorki stundar nám, atvinnu eða félagsstarf. Markmiðið er að styðja hópinn til þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.

Verkefnið er styrkt af Erasmus+ og er samstarfsverkefni sjö aðila frá sex Evrópulöndum. Við lok hvers Evrópuverkefnis er haldinn kynningarviðburður þar sem markmiðið er að miðla upplýsingum um verkefnið og afurðir þess innan nærsamfélagsins. Að þessu sinni var haldin kynning fyrir kennara í Heppuskóla en prufunámskeið verkefnisins var haldið með 10. bekk Grunnskóla Hornafjarðar í vor.

Rafrænn kynningarviðburður var svo einnig haldinn í vikunni þar sem aðferðafræði verkefnisins og afurðir þess voru kynntar. Öllum verkþáttum er því lokið og við tekur vinna við gerð lokaskýrslu.

Þátttaka í Evrópuverkefnum hefur verið umfangsmikill hluti af starfsemi setursins síðustu ár. Verkefnin hafa verið setrinu mikilvæg enda sértekjuþörf starfseminnar talsverð. Ávinningur af þátttöku í fjölþjóðlegum verkefnum felst hins vegar ekki síst í þeim tækifærum sem þau veita til yfirfærslu þekkingar og tengslamyndunar. Þá hafa afurðir verkefnanna haft sterk tengsl við stoðir setursins og nýst í starfsemi þess með margvíslegum hætti.