Nýheimar þekkingarsetur hefur í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð og Framhaldsskóla Austurskaftafellssýslu unnið að gerð fræðsluefnis um loftslagsbreytingar. Verkefni þetta er liður í stærra samvinnuverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Vatnajökulsþjóðgarðs sem ber heitið Hörfandi jöklar sem unnið er í tengslum við sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
Markmið verkefnisins er aukin vitund fólks um loftslagsbreytingar, orsakir þeirra og áhrif. Enda er það forsenda þess að unnt verði að sporna við þeirri þróun sem á sér stað á sviði loftslagsmála og er svo sýnileg í umhverfi Hornafjarðar.
Samstarfshópur innan Nýheima vann að samantekt efnisins og naut liðsinnis Snorra Baldurssonar líffræðings og Hrafnhildar Hannesdóttur jöklafræðings. Gerð og miðlun efnisins er hugsuð til að auka aðgengi að heildstæðum og áreiðanlegum upplýsingum um loftlagsbreytingar með sérstaka áherslu á náttúru Austur-Skaftafellssýslu.
Samantektin nýtist við leiðsögn og móttöku ferðafólks í nágrenni Vatnajökuls eins og titillinn vísar í. Ferðaþjónustan nýtir stórbrotna náttúru landsins sem vettvang til fræðslu og miðlunar upplýsinga og hefur þannig einstakt tækifæri til að stuðla að aukinni þekkingu almennings um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og mannlíf.
Er það von samstarfshópsins að samantekt þessi nýtist þeim sem ferðast um svæðið, leiðsegja öðrum eða áhuga hafa á að afla sér nauðsynlegrar þekkingar á auðveldan og aðgengilegan hátt.