Niðurstöður íbúakönnunar 2023

Íbúakönnun landshlutanna er umfangsmikil viðhorfskönnun á vegum allra landshlutasamtaka á landsbyggðinni, atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar. Könnunin er ætluð öllum íbúum landsins, 18 ára og eldri og er hún lögð fyrir á þriggja ára fresti. Tilgangur könnunarinnar er að varpa ljósi á viðhorf íbúa til búsetuskilyrða, aðstæðna á vinnumarkaði ásamt afstöðu til mikilvægra þátta svo sem hamingju og framtíðaráforma um búsetu.

Könnunin var síðast lögð fyrir á landinu í heild veturinn 2023-2024, á íslensku, ensku og pólsku. Í Sveitarfélaginu Hornafirði tóku 328 einstaklingar þátt í könnuninni (tilviljunarkennt úrtak). Starfsmenn Nýheima þekkingarseturs, sem fara með hlutverk byggðaþróunarfulltrúa SASS á svæðinu, hafa unnið að greiningu á niðurstöðum fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð.

Búsetuskilyrði – staða og mikilvægi ólíkra málaflokka

Með þátttöku í Í búakönnun landshlutanna veita íbúar sveitarfélagsins mikilvæga innsýn í upplifun sína af búsetu á svæðinu. Niðurstöðurnar sýna meðal annars viðhorf íbúa til stöðu 40 málaflokka, þar af falla 17 atriði undir þjónustu sveitarfélagsins. Þátttakendur eru einnig beðnir um að leggja mat á mikilvægi þessara málaflokka.

Almennt öryggi er mikilvægasti málaflokkurinn að mati svarenda í Sveitarfélaginu Hornafirði en sá málaflokkur sem er talinn hafa bestu stöðuna er nálægð við fjölbreytta náttúru. Staða húsnæðismála kemur hins vegar verr út úr könnuninni. Af málaflokkunum 40 er minnst ánægja er með framboð á íbúðarhúsnæði til leigu og aðeins örfáum sætum ofar á listanum er staða framboðs á íbúðarhúsnæði til kaups.

Í mörgum tilfellum raðast sömu þættir í efstu og neðstu sætin þegar litið er til stöðu og mikilvægis, það er að segja að í þeim málaflokkum sem svarendur telja mikilvægasta er staðan jafnframt oft talin góð. Auk almenns öryggis og nálægðar við fjölbreytta náttúru eru friðsæld, loftgæði og gott mannlíf meðal atriða sem þátttakendur í könnuninni telja mikilvæg og standa vel í Sveitarfélaginu Hornafirði. Í öðrum tilfellum er nokkur munur á mati svarenda á stöðu og mikilvægi. Sem dæmi má nefna vöruverð sem fær einkunnina 4,37 fyrir mikilvægi en 1,92 fyrir stöðu. Gæði heilsugæslu/ sjúkrastofnana er annar mikilvægasti málaflokkurinn að mati þátttakenda, með einkunnina 4,56 fyrir mikilvægi. Mat á stöðu þess málaflokks fær þó nokkuð lægri einkunn, eða 3,03.

Almenn ánægja með búsetu í Sveitarfélaginu Hornafirði

Í nýjustu útgáfu íbúakönnunarinnar (2023) var í fyrsta sinn spurt um afstöðu til fjölda ferðamanna. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru íbúar sveitarfélagsins líklegri til að telja fjölda ferðamanna of mikinn, samanborið við íbúa á landinu í heild. Almennt telja þátttakendur könnunarinnar þó gott að búa í Sveitarfélaginu Hornafirði og hamingja íbúa mælist ívið hærri en landsmeðaltal. Um 84% þeirra sem tóku afstöðu til búferlaflutninga töldu frekar ólíklegt eða mjög ólíklegt að þau flyttu úr sveitarfélaginu á næstu tveimur árum.

Þessar niðurstöður geta veitt sveitarfélaginu mikilvægar upplýsingar um styrkleika og veikleika svæðisins, sem hægt er að nýta til að bæta lífsgæði íbúa enn frekar og stuðlað að betra samfélagi.

Nánari upplýsingar má finna í meðfylgjandi skjali.