Nýheimar þekkingarsetur skrifar undir nýjan samning við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
Nýheimar þekkingarsetur hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN). Unnið hefur verið að endurnýjun samnings um nokkurt skeið og því afar ánægjulegt að þessum áfanga sé nú náð.
Samningurinn felur í sér vissa áherslubreytingu frá upphaflegum samningi setursins við þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nýr samningur kveður á um hlutverk setursins varðandi nám á háskólastigi, nýsköpun og rannsóknir.
Hlutverk setursins á sviði háskólaþjónustu er nú skilgreint með skýrari hætti en áður var. Þrátt fyrir að það hlutverk hafi ekki verið skýrt skilgreint fram til þessa þá hefur setrið sinnt þjónustu við háskólanema á svæðinu með námsaðstöðu og prófaþjónustu í Nýheimum frá árinu 2017. Með tilkomu nýs samnings mun setrið, frá 1. janúar 2025, afnema þau gjöld sem nemendur hafa greitt til setursins fyrir prófaþjónustu. Þetta er stórt framfaraskref í að bæta aðgengi að menntun fyrir alla.
Samningurinn tryggir að Nýheimar þekkingarsetur verði áfram öflugur vettvangur skapandi þróunar, þekkingar og framtakssemi á Suðausturlandi. Setrið vill þakka fráfarandi ráðherra HVIN, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrir hennar stuðning í undirbúningi samningsins og óska henni velfarnaðar í komandi störfum.