Nýheimar þekkingarsetur og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafa frá árinu 2016 átt í samstarfi um hlutverk atvinnuráðgjafa og verkefnastjóra fyrir SASS þvert á landshlutann. Hefur Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir verkefnastjóri í Nýheimum sinnt þeim hlutverkum frá upphafi. Nú í sumar var skrifað undir nýjan samstarfssamning milli Nýheima og SASS sem felur fyrst og fremst í sér þær breytingar að hann nær nú einvörðungu til Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Starfsmenn Nýheima munu sinna hlutverki byggðaþróunarfulltrúa í Hornafirði. Samfara þessum breytingum hefur Guðrún Ásdís ráðið sig til starfa sem verkefnisstjóri og kynningarfulltrúi hjá SASS.
Hlutverk byggðaþróunarfulltrúa
Með nýjum samningi verða til hlutverk byggðaþróunarfulltrúa á hverju atvinnusóknarsvæði, sem eru sjö talsins á Suðurlandi, þar sem Hornafjörður er skilgreint sem eitt atvinnusóknarsvæði. SASS vill með þessum breytingum leggja meiri áherslu á hvert og eitt atvinnusóknarsvæði. Markmiðið er að stuðla að jákvæðri byggðaþróun á hverju svæði, út frá áherslum og áskorunum þeirra. Hlutverk byggðaþróunarfulltrúa eru m.a. ráðgjöf og handleiðsla í tengslum við atvinnuþróun, nýsköpun og menningarmál, upplýsingamiðlun og öflun upplýsinga á hverju svæði fyrir sig. Byggðaþróunarfulltrúar verða jafnframt fulltrúar og ráðgjafar Uppbyggingarsjóðs á sínum svæðum og sinna því samskiptum við umsækjendur og styrkþega Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. Leggur SASS til fjármagn til starfs byggðaþróunarfulltrúa á hverju svæði fyrir sig í samstarfi við Byggðastofnun.
Kristín Vala Þrastardóttir verkefnastjóri og Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður setursins munu sinna hlutverkum byggðaþróunarfulltrúa og þar með ráðgjöf á svæðinu og verða þær til taks á skrifstofum sínum á Vesturgangi Nýheima. Einnig má hafa samband með tölvupósti á hugrunharpa@nyheimar.is eða kristinvala@nyheimar.is
Nýheimar þekkingarsetur þakkar Guðrúnu Ásdísi fyrir vel unnin störf á síðustu árum og óskar henni alls hins besta.