Nýsköpunarnetið

Nýsköpunarnetið er samstarfsvettvangur Nýheima þekkingarseturs, Vöruhússins, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Háskólafélags Suðurlands. Markmið netsins er að vera vettvangur skapandi samvinnu í nýsköpun á svæðinu, með samstarfi við helstu atvinnugreinar á Hornafirði, frumkvöðla af ýmsum toga sem og lista- og handverksfólk. 

Hlutverk Nýheima þekkingarseturs í netinu

Verkefnastjórar Nýheima þekkingarseturs veita þjónustu og ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja um styrki og fjármögnun verkefna. Setrið stendur fyrir námskeiðum og viðburðum og veitir aðstoð við ýmis nýsköpunarverkefni og viðburði á svæðinu. Setrið styður enn fremur við notendur Hreiðursins frumkvöðlaseturs á Höfn. Einnig veitir setrið þjónustu til háskólanema og einstaklinga í sí- og endurmenntun með námsaðstöðu og þjónustu vegna próftöku.

Verkefnastjórar Nýheima þekkingarseturs sinna hlutverki byggðarþróunarfulltrúa Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) á svæðinu. Felur það í sér þjónustu og ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja en sú ráðgjöf nær til atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar. Ráðgjafar Nýheima veita aðstoð og ráðgjöf vegna styrkumsókna til Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

Vöruhúsið / Fab Lab

Vöruhúsið er miðstöð skapandi greina á Hornafirði. Vettvangur þar sem einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geta nýtt aðstöðu, sótt þekkingu og bætt við sig kunnáttu á sviði sköpunar. 

  • Neðsta hæð: Tónlistarrými, málm- og rafsuðuaðstaða og Þrykkjan félagsmiðstöð.
  • Miðhæðin: Textíl-, lista- og smíðastofur. Stór salur í miðjunni notaður fyrir t.d. fundi eða kynningar.
  • Efsta hæð: Fab Lab, ljósmyndarými og textíll.


Fab Lab
Fab Lab er opinn vettvangur fyrir almenning, fyrirtæki, frumkvöðla og nemendur.
Þetta er smiðja með tækjum og tólum til þess að gera nánast hvað sem er. Í smiðjunum er búnaður til þess að raungera hugmyndir með hjálp tölvustuddrar hönnunar og framleiðslutækni. Þar eru meðal annars tölvustýrðir laserskerar, vinylskerar, fræsivélar, þrívíddarskannar, þrívíddarprentarar, ásamt aðstöðu fyrir tölvuvinnslu og rafeindatækni.

Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður Vöruhúss / Fab Lab – sindriorn@hornafjordur.is

Logo_1_ISL_SH

Sveitarfélag Hornafjarðar

Atvinnu- og ferðamálafulltrúi sveitarfélagsins veitir fjölþætta ráðgjöf og alhliða upplýsingamiðlun um atvinnu-, ferðamála- og nýsköpunarverkefni, auk þess að aðstoða frumkvöðla og taka þátt í fjölbreyttum verkefnum. Starfsmaður sér einnig um leigu á almennum skrifstofum, skrifstofum fyrir störf án staðsetningar og fyrir Hreiðrið frumkvöðlasetur.

Sveitarfélagið Hornafjörður býður upp á aðstöðu fyrir aðila sem starfa án staðsetningar og er sú aðstaða einnig í boði fyrir frumkvöðla á svæðinu. Skrifstofan er staðsett á 2. hæð í Miðbæ og er um að ræða sameiginlega skrifstofuaðstöðu fyrir allt að fimm manns, með aðgengi að kaffistofu og fundaraðstöðu. Leiguverð er hóflegt og má finna gjaldskrá inni á heimasíðu sveitarfélagins undir „Gjaldskrár“.

Stuðningurinn við frumkvöðla heyrir undir Hreiðrið – Frumkvöðlasetur, en um er að ræða samstarfsverkefni um netverk fyrir frumkvöðla á Suðurlandi. Í Hreiðrinu geta frumkvöðlar fengið ráðgjöf og leiðsögn við upphaf sinnar vegferðar, auk fyrrnefnds aðgangs að vinnuaðstöðu og samfélagi annarra frumkvöðla. Sveitarfélagið Hornafjörður, Háskólafélag Suðurlands og Nýheimar þekkingarsetur standa sameiginlega að verkefninu.

Áhugasömum aðilum er bent á að hafa samband við Árdísi Ernu Halldórsdóttur í netfangið ardis@hornafjordur.is fyrir bókanir á aðstöðu og nánari upplýsingar.

HaskomaSam

Háskólafélag Suðurlands

Háskólafélag Suðurlands eflir menntun, rannsóknir og nýsköpun á Suðurlandi. Félagið tengir háskóla, fyrirtæki og einstaklinga, stendur fyrir viðburðum, námskeiðum og veitir aðstoð við rannsóknir og nýsköpunarverkefni. Þá rekur félagið Hreiðrið á Selfossi, frumkvöðlasetur með aðstöðu og ráðgjöf.

Háskólafélag Suðurlands rekur Vísinda- og rannsóknarsjóð Suðurlands sem hefur það hlutverk að styrkja nemendaverkefni á háskólastigi sem hafa beina skírskotun í Suðurland. Nemendur sem eru skráðir í nám á háskólastigi geta sent inn umsókn fyrir verkefnum sínum ef það þjónar ótvíræðum atvinnu- og/eða fræðilegum tilgangi fyrir Suðurland eða hluta Suðurlands. Nánari upplýsingar Vísindasjóður – Háskólafélag Suðurlands (hfsu.is)

Hreiðrið frumkvöðlasetur

Frumkvöðlahreiður er aðstaða og stuðningur við frumkvöðla í þekkingarsamfélaginu í Hornafirði. Tilgangur Hreiðursins er að auka þekkingu og vitund þeirra á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og markaðsmála og fjölga þannig vel skilgreindum og mótuðum verkefnum á svæðinu.

Í boði er vinnuaðstaða í Hreiðrinu sem staðsett er í Miðbæ ásamt handleiðslu ráðgjafa sem mótuð er út frá þörfum frumkvöðulsins. Nokkrir frumkvöðlar geta starfað í Hreiðrinu á sama tíma og njóta því einnig jafningjastuðnings. Í sama rými er nú einnig útleiga á aðstöðu vegna starfa án staðsetningar. Ef þú telur að þitt verkefni gæti blómstrað við þessar aðstæður hvetjum við þig til að kynna þér Hreiðrið.

Hreiðrið á Höfn er rekið af Sveitarfélaginu Hornafirði en samstarf um frumkvöðlahandleiðslu er við ráðgjafa á vegum Nýheima þekkingarseturs, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga/SASS, Háskólafélags Suðurlands og FabLab/ Vöruhúsinu á Höfn.

Árdís Erna (ardis@hornafjordur.is) atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar er tengiliður fyrir leigu á vinnuaðstöðu.