Nýverið lauk verklið tvö í Erasmus+ verkefninu NICHE en í því fólst að samstarfsaðilar rýndu í raunverulegar aðstæður í störfum tengdum óáþreifanlegum menningararfi. Greind var þörf á þjálfun hjá viðkomandi stéttum og þróun geirans kortlögð. Hver þátttakandi greindi frá niðurstöðum um stöðuna í sínu landi og samantekt þessara þátta verður grunnur að verkþætti þrjú í verkefninu.
Markmið NICHE er að efla frumkvöðlastarfsemi á vettvangi óáþreifanlegs menningararfs með því að þróa þjálfunarleiðir og fræðsluefni sem eflir og eykur samkeppnishæfni og frumkvöðlastarf.
NICHE verkefnið er tveggja ára verkefni sem hófst í lok árs 2020 og lýkur árið 2022. Það er unnið með styrk frá Erasmus+, samstarfsáætlun ESB. Þátttakendur í verkefninu eru níu talsins og koma frá sjö löndum Evrópu; Íslandi, Belgíu, Grikklandi, Írlandi, Ítalíu, Spáni og Svíþjóð. Sótt var um verkefnið á Íslandi og fer Þekkingarnet Þingeyinga með verkefnastjórn yfir verkefninu.
Niðurstaða íslensku samstarfsaðilanna er að svigrúm er til að bæta varðveislu, skráningu og fræðslu um óáþreifanlegan menningararf á Íslandi. Jafnvel þótt Ísland sé ríkt af óáþreifanlegum menningararfi og skyldri starfsemi skortir rannsóknir, gögn, lagaramma og formlega og óformlega menntun. Óáþreifanlegan menningararf er til dæmis hvorki að finna í lögum nr. 80/2012 um menningarminjar, í Menningarstefnu íslenskra stjórnvalda frá 2013 né í gagnagrunni Hagstofunnar. Þrátt fyrir þetta byggja margar stofnanir og félög starf sitt að hluta eða öllu leyti á óáþreifanlegum menningararfi Íslands. Hafa ber í huga að þessar niðurstöður endurspegla ekki fjölbreytileika íslenskrar menningararfleiðar, iðkun eða störf henni tengdum. Ísland býr yfir ríkulegu menningarumhverfi og hlutfallslega háu atvinnuhlutfalli í menningargeiranum, samanborið við önnur Evrópulönd. Með bættum löggjafarramma, aukinni áherslu á tengdar rannsóknir, gögn og menntun, auk samstarfs menntunaraðila og stjórnvalda má auka meðvitund almennings um þennan auð og tryggja betur varðveislu óáþreifanlegrar menningararfleifðar Íslands. Nýting og nýsköpun á sviði óáþreifanlegs menningararfs gæti skapað mikilvæg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf, landsbyggðina og ferðaþjónustu.
Greinin er skrifuð af samstarfsaðilum setursins hjá Þekkingarneti Þingeyinga á Húsavík.