OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR Í UPPBYGGINGARSJÓÐ SUÐURLANDS 2025

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í haustúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands 2025. Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar á Suðurlandi. Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar eru það atvinnuskapandi og/eða framleiðniaukandi verkefni sem eiga kost á stuðningi ásamt nýsköpunarverkefnum sem efla fjölbreytileika atvinnulífs. Í flokki menningar er markmið að verkefni efli menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi.

Umsækjendum er bent á að kynna sér vel úthlutunarreglur sjóðsins, áherslur, markmið og mat á umsóknum sem eru aðgengilegar á heimasíðu SASS. Sjóðurinn er samkeppnissjóður sem þýðir að vel mótuð verkefni og skýrar umsóknir eru líklegri til að hljóta styrki. Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt í gegnum umsóknarvef sjóðsins fyrir kl. 12:00 þann 28. október 2025.

Hægt er að kynna sér sjóðinn nánar á heimasíðunni www.sass.is/uppbyggingarsjodur

Nú er opnaður nýr umsóknarvefur sem hægt er að nálgast hér. 

Síðasta úthlutun
Í mars síðastliðnum barst metfjöldi umsókna úr Sveitarfélaginu Hornafirði, eða alls 28, sem samsvarar um 23% af heildarfjölda umsókna á Suðurlandi (122 talsins). Þar af voru 6 umsóknir í flokki atvinnu- og nýsköpunar (19%) og 22 umsóknir í flokki menningar (24%) frá Sveitarfélaginu Hornafirði. Þetta sýnir vel þá grósku, framsækni og fjölbreytni sem einkennir verkefni á svæðinu og undirstrikar mikilvægi sjóðsins sem stuðningsaðila við atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og menningarstarf á Suðurlandi

Ráðgjöf og aðstoð
Starfsfólk Nýheima þekkingarseturs sinnir ráðgjöf og handleiðslu um sjóðinn í samstarfi við SASS og er öllum velkomið að hafa samband við Hugrúnu Hörpu (hugrunharpa@nyheimar.is) eða Evu Bjarna (eva@nyheimar.is) eða kíkja við í Nýheimum.