Green redevelopment, competitive Nordic urban regions eða Sjálfbærir norrænir bæir.

Verkefnið, sem var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar undir forystu Noregs, hafði að markmiði að móta sameiginlegan norrænan leiðarvísi sem hefur Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Leiðarvísirinn er ætlaður litlum og meðalstórum bæjum sem vilja auka aðdráttarafl sitt og verða líflegt og sjálfbært þéttbýli.

Sveitarfélagið Hornafjörður var þátttakandi í verkefninu en Nýheimar þekkingarsetur kom að verkefnastjórn og framkvæmd verkefnisins ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins. Fól það í sér aðkomu að stjórnun, skipulagningu og framkvæmd verkþátta auk þátttöku á verkefnafundum. Hornafjörður lagði áherslu á tækifæri til útivistar og afþreyingar þar sem góð útivistar- og leiksvæði og vistvænar samgöngur voru megin áhersluatriði.

Verkefnið fól í sér að prófa leiðir til að stuðla að þátttöku íbúa í skipulagsferli. Til þess var notuð Maptionnaire vefkönnun þar sem íbúar voru spurðir um notkun þeirra á útvistarsvæðum, göngu og hjólastígum. Þá höfðu íbúar þar tækifæri til að koma fram með hugmyndir og ábendingar hvað þessa þætti varðar. Tóku 216 íbúar þátt í könnuninni sem er um 10% allra íbúa sveitarfélagsins og var þátttakan framar vonum.

Björn Jóhannesson landslagsarkitekt hjá Urban Beat var fenginn til að vinna hugmynd að útivistarsvæði sem byggði á niðurstöðum íbúakönnunarinnar. Hér má finna niðurstöður könnunarinnar. Meira má lesa um verkefnið allt og afurðir þess á heimasíðu verkefnisins www.regjeringen.no.

Verkefnastjóri Nýheima þekkingarseturs: Hugrún Harpa