Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun
Verkefnið er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn, Þekkingarnets Þingeyinga á Húsavík og Háskólafélag Suðurlands á Selfossi. Verkefnið snýr að því að skerpa sýn á stöðu, hlutverk og árangur þekkingarsetra á landsbyggðinni, með sérstakri áherslu á byggðaþróun. Verkefnið felur í sér úttekt á innri starfsemi þekkingarsetra og rannsókn á áhrifum og stöðu þeirra gagnvart nærsamfélaginu. Þá felur verkefnið í sér ítarlega skoðun þriggja þekkingarsamfélaga á Íslandi: Nýheima Þekkingarseturs á Höfn, Háskólafélags Suðurlands á Selfossi og Þekkingarnets Þingeyinga á Húsavík. Anna Guðrún Edvardsdóttir menntunarfræðingur er rannsakandi verkefnisins.
Í upphafi árs var rafræn spurningalistakönnun lögð fyrir íbúa á hverjum stað. Meginmarkmið þess hluta rannsóknarinnar var að kanna áhrif þessara þriggja þekkingarsetra á nærsamfélagið og afla upplýsinga um viðhorf almennings í þessum samfélögum til þekkingarsetra sem starfa þar. Þátttaka var fremur góð á okkar svæði en um 45% þátttakenda voru búsettir á starfssvæði Nýheima Þekkingarseturs.
Á haustmánuðum var tekið viðtal við rýnihóp sem skipaður var íbúum Hornafjarðar. Markmið hans var að kafa dýpra ofan í niðurstöður spurningalistakönnunar með áherslu á viðhorf til þekkingarsetranna og áhrif þeirra á nærsamfélagið. Ljóst er af áfangaskýrslum verkefnisins að niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast setrunum í áframhaldandi þróun starfseminnar, ekki síst þegar kemur að því að aðlaga starfsemina að breyttum aðstæðum og kröfum samfélagsins. Síðasti áfangi verkefnisins er gerð lokaskýrslu þar sem niðurstöður verða dregnar saman og settar fram tillögur að úrbótum og verkefnum sem eru til þess fallin að efla starfsemi setranna og tengja þau betur við þau samfélög sem þau þjóna. Lokaskýrslan verður gerð aðgengileg á heimasíðu þekkingarsetursins.
Verkefnið hlaut styrk úr Byggðarannsóknasjóði og Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar auk þess sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkti verkefnið.