Starfastefnumót

Starfastefnumót var haldið í Nýheimum í annað sinn í október 2023. Tilgangur viðburðarins var að gera fjölbreytileika atvinnulífs svæðisins sýnilegan og bjóða fyrirtækjum á stefnumót við mögulega starfsmenn framtíðarinnar og samfélagið allt. Áhersla var lögð á fjölbreytt tækifæri til náms og starfa á svæðinu og að skapa umræðu um þróun starfaumhverfisins. Þá vildi setrið með viðburðinum vekja áhuga ungmenna á framtíðinni í sveitarfélaginu.

Starfastefnumótið var unnið í samstarfi við Grunnskóla Hornafjarðar, Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, Sveitarfélagið Hornafjörð og fyrirtæki á svæðinu. Allir nemendur grunnskólans komu í skipulagða heimsókn í Nýheima. Þá var dagurinn hluti af vísindadögum nemenda í framhaldsskólanum en nemendum var skipt í hópa sem rannsökuðu starfsframboð, menntunarkröfur og annað er tengdist vinnumarkaðnum í sveitarfélaginu. Einn hópur nemenda tók þátt í skipulagi og undirbúningi viðburðarins ásamt verkefnastjórum setursins. Sá hópur sá meðal annars um skipulag og uppsetningu á básum, veitingar, gerð auglýsinga og miðlun á samfélagsmiðlum.

Fulltrúar um 40 fyrirtækja og stofnana kynntu starfsemi sína á viðburðinum og var ýmislegt við að vera yfir daginn og margt að skoða á básum fyrirtækja og stofnana. Dagskránni lauk svo með erindi frá ungum frumkvöðli, Nökkva Dan Elliðasyni, sem sagði frá sinni vegferð sem frumkvöðull.