Aðildarstofnanir að Nýheimum

Stofnaðilar Nýheima þekkingarseturs voru: Skólaskrifstofa Hornafjarðar, Háskóli Íslands, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ríki Vatnajökuls, Náttúrustofa Suðausturlands, Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.

Síðar gerðust Háskólafélag Suðurlands, Vatnajökulsþjóðgarður og Vöruhúsið aðilar að setrinu. Aðildarstofnanir setursins eru nú ellefu talsins en þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður í ársbyrjun 2021 var aðild hennar að setrinu slitið. 

Aðilar að Nýheimum þekkingarsetri eru af ólíkum toga með fjölbreytt verkefna- og rannsóknasvið. Aðildarstofnanir hafa með sér þverfaglegt og hagnýtt samstarf sem miðar að því að stuðla að jákvæðri byggðaþróun á Suðausturlandi og bæta lífsgæði á svæðinu. 

Stofnanirnar eiga allar fulltrúa í stjórn þekkingarsetursins. Á reglulegum stjórnarfundum eiga fulltrúar þeirra samtal um málefni svæðisins og samfélagsins á Suðausturlandi með áherslu á stoðir setursins: menntun, menningu, nýsköpun og rannsóknir.