Þekkingarsetrið fær viðurkenningu á uppskeruhátíð Evrópuverkefna
Þann 8. maí var uppskeruhátíð Evrópuverkefna haldin í Kolaportinu á vegum Rannís. Á hátíðinni var Evrópusamvinnu fagnað og voru þar kynnt fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr áætlunum ESB. Nýheimar þekkingarsetur fékk boð um þátttöku í hátíðinni þar sem verkefni okkar, Digital communities, er meðal þeirra verkefna sem hafa hlotið viðurkenningu sem fyrirmyndarverkefni Erasmus+. Verkefnið sem fjallaði um stafræna færni eldri íbúa var fyrsta Evrópuverkefnið sem setrið stýrði og þessi góði árangur því einkar ánægjulegur. Fulltrúar setursins kynntu verkefnið fyrir gestum hátíðarinnar auk þess sem Hugrún Harpa forstöðumaður setursins tók við viðurkenningu verkefnisins.
Þátttaka í Evrópuverkefnum hefur verið mikilvægur þáttur í starfi setursins sem hefur nú skapað sér öflugt fjölþjóðlegt tengslanet. Verkefnin hafa verið afar fjölbreytt og þeim fylgt dýrmæt tækifæri til þekkingaryfirfærslu og verkefnaþróunar. Þá hafa verkefnin skilað hagnýtum afurðum sem nýtast setrinu og samfélagi okkar með ýmsum hætti.
Hugrún Harpa forstöðumaður setursins tekur við viðurkenningu á uppskeruhátíð Evrópuverkefna sem haldin var í Kolaportinu
Hugrún Harpa og Kristín Vala kynntu verkefnið Digital communities fyrir gestum hátíðarinnar.