Upphafsfundur verkefnisins Future in Focus
Future in Focus: Empowering Youth in Rural Communities er heiti nýs norræns samstarfsverkefnis sem Nýheimar þekkingarsetur tekur þátt í. Verkefnið er styrkt af Nordplus Horizontal Programm og er það unnið í samstarf við Nordfjordkompaniet í Noregi og Hälsinglands Utbildningsförbund í Svíþjóð.
Verkefnið er til tveggja ára og var upphafsfundur þess haldinn á Höfn 24. september s.l. Verkefnið miðar að því að því að greina þær áskoranir sem ungt fólk stendur frammi fyrir hvað varðar búsetuval. Verkefnið mun leggja áherslu á að fræða og auka skilning á helstu áhrifaþáttum við búsetuval auk þess að greina mögulegar leiðir til þess að efla og styrkja stöðu ungs fólks í dreifðum byggðum. Í verkefninu verður lögð áhersla á að kanna hug ungs fólks og þeirra upplifun, væntingar og tækifæri til framtíðar í heimabyggð.
Næstu skref
Næstu mánuðir munu einkennast af undirbúningi rannsóknarvinnu og þróun aðferða til að safna gögnum um viðhorf og framtíðarsýn ungs fólks. Hver samstarfsaðili mun hefja vinnu í sínu landi með þátttöku skóla, sveitarfélaga og ungmenna á staðnum.
Næsti formlegi samstarfsfundur verður haldinn í maí 2026 í Svíþjóð. Þar munu samstarfsaðilar kynna fyrstu niðurstöður úr rannsóknarvinnu og halda áfram að þróa fræðsluefni og stefnu verkefnisins.
Verkefnið mun standa yfir til ársins 2027 og verða helstu niðurstöður birtar í heildarskýrslu ásamt stuttum samantektum á íslensku, norsku og sænsku.
Verkefnastjórar Nýheima þekkingarseturs í verkefninu eru Hugrún Harpa og Nejra.