Vorúthlutun Uppbyggingarsjóð Suðurlands
Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður sem rekinn er af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Sjóðurinn styrkir sunnlensk verkefni á sviði menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar og fer úthlutun fram ár hvert að vori og hausti. Umsóknarfrestur í sjóðinn rann út þann 4. mars síðastliðinn fyrir vorúthlutunina.
Hugrún Harpa er byggðaþróunarfulltrúi SASS í Sveitarfélaginu Hornafirði, en ásamt henni sinnir Eva, nýr starfsmaður Nýheima þekkingarseturs, ráðgjöf um Uppbyggingarsjóðinn.
Í mars 2024 barst metfjöldi umsókna frá okkar svæði í sjóðinn, eða 27, en talsvert færri sóttu um í október síðastliðnum, alls 18, sem var þó í samræmi við fækkun umsókna yfir allt Suðurland. Með hækkandi sól virðast hugmyndir fæðast og umsóknirnar héðan í þetta sinn voru 28 talsins. Íbúar í sveitarfélaginu Hornafirði áttu nú 23% innsendra umsókna, af heildarfjölda umsókna í sjóðinn af öllu Suðurlandi sem var 122. Þess má geta að íbúafjöldi í Sveitarfélaginu Hornafirði er rétt rúmlega 7% af íbúafjölda á Suðurlandi.
Heildarfjöldi umsókna var sem áður segir 122 en af þeim voru 31 í flokki atvinnu- og nýsköpunar, þar af 6 umsóknir frá Sveitarfélaginu Hornafirði eða um 19% umsókna. Í flokki menningar voru 91 umsóknir sendar inn samanlagt, þar af 22 frá okkar svæði eða um 24% umsókna.
Það er gaman að verða vitni að grósku, framsækni og fjölbreytni umsókna frá Sveitarfélaginu Hornafirði og það dregur einnig fram hversu mikilvægur stuðningsaðili við menningarstarf, atvinnuþróun og nýsköpun Uppbyggingarsjóðurinn er.
Óháð fagráð tekur nú mánuð til þess að meta umsóknir sem bárust sjóðnum. Allir umsækjendur fá þá sendan tölvupóst um niðurstöðu fagráðs og stjórnar SASS. Allir styrkhafar hafa svo samband við byggðaþróunarfulltrúa og ganga frá samningi um styrkinn en einnig hvetjum við þá sem ekki hljóta styrk að sinni að hafa samband og þróa hugmyndir sínar áfram fyrir næstu úthlutun.