Í tilefni verkloka í Sustainable verkefninu, sem setrið hefur unnið að undanfarin tvö ár, var boðið til fundar í Nýheimum þann 20. október s.l. til að miðla lærdómi verkefnisins sem snýr að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í kennsluefni og fjalla um stöðuna í samfélaginu á Höfn í dag.

Samstarfsaðilar í verkefninu, sem koma frá níu stofnunum í Svíþjóð, Belgíu, Írlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Spáni og Rúmeníu​, unnu saman að þróun leiðarvísis, handbókar og kennsluefnis um innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Leiðarvísirinn og handbókin voru yfirfarin af fimm sérfræðingum í hverju landi, samtals 40 manns en kennsluefnið var prófað í Nýheimum síðastliðið sumar en þá var haldið þjálfaranámskeið fyrir 25 manns frá stofnununum níu. (Sustainable: þjálfaranámskeið). Einnig var efnið prófað með hópi ungra og efnilegra Hornfirðinga í Nýheimum 12. október. (Ungir Hornfirðingar og Heimsmarkmiðin).

Á kynningarviðburðinum var stykklað á stóru í verkþáttum Sustainable undanfarinna tveggja ára með sérstaka áherslu á kennsluefnið og fóru þátttakendur m.a. í leik úr kennsluefninu. Ungmennin fóru í sama leik á sínum viðburði og tókust þau á jákvæðan hátt á við stór vandamál svo sem fæðuöryggi, innflytjendur og skuldastöðu fátækra ríkja.

Allar afurðir verkefnisins eru aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins, Sustainable (sustainable-project.eu)