Sustainable
Umbreyting í átt til sjálfbærni er alþjóðleg áskorun sem tekur til menntunar, félagslegra, efnahagslegra og pólitískra þátta samfélagsins. Þar sem áskoranirnar spanna allar víddir nútímasamfélags er sérstaklega mikilvægt að mæta þeim með heildstæðum og hnattrænum hætti. Svo hægt sé að grípa til aðgerða er lykilatriði að auka skilning á viðfangsefninu og því er menntun grundvöllur umbreytinga.
Með menntun getum við stuðlað að tilurð menningar sem styður við framþróun og sjálfbærni og leiðir af sér árangursríkar aðgerðir til umbreytinga.
Meginmarkmið verkefnisins er að skapa heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna vægi í nálgun og aðferðum í fræðslu fullorðinna.
Samstarfsaðilar koma frá átta Evrópulöndum, auk Nýheima þekkingarseturs eru samstarfsstofnanir frá Svíþjóð, Belgíu, Írlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Spáni og Rúmeníu.
Innan verkefnisins verður unnið að mótun fræðsluefnis með áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í eftirfarandi fjórum verkþáttum:
- Gerð handbókar um sjálfbærni og heimsmarkmiðin þar sem teknar eru saman staðreyndir og upplýsingar til hagnýtingar fyrir kennara og leiðbeinendur.
- Gerð leiðarvísis með leiðbeiningum um skref í átt til sjálfbærni í einkalífi og faglegu starfi. Efnið mun nýtast leiðbeinendum og kennurum við að innleiða sjónarmið sjálfbærni í námsefni og námsumhverfi.
- Gerð námsefnis sem lýsir aðferðum og efnistökum sem styðja við sjálfbærni í formlegri, óformlegri og formlausri menntun. Hagnýtt efni fyrir kennara og leiðbeinendur til að auka vægi sjálfbærni í fræðslu og miðlun hvers konar
- Kennsluvefur sem hægt verður að skrá sig inn á í gegnum heimasíðu verkefnisins. Þar verður allt efni verkefnisins gert aðgengilegt á öllum tungumálum samstarfsaðila.
Fyrsta verkþætti er nú lokið og er handbókin aðgengileg hér, og á ensku hér.
Fréttabréf 1 má nálgast hér, og á ensku hér.
Verkefnisstjórar fyrir hönd Nýheima þekkingarseturs eru Kristín Vala (kristinvala@nyheimar.is) og Hugrún Harpa (hugrunharpa@nyheimar.is)