KNOW HUBs Þekkingarsetur, uppbyggjandi afl í dreifðum byggðum er samstarfsverkefni milli Nýheima þekkingarseturs og stofnana víða í Evrópu. Verkefnið var til tveggja ára en það hlaut styrk frá Erasmus+ árið 2018 og lauk síðla árs 2020.
KNOW HUBs leggur áherslu á hvernig þekkingarsetur geta þróað starfsemi sína með hliðsjón af þörfum og kröfum samfélaga í dreifðum byggðum. Nálgun verkefnisins byggir á því að nýta hugmyndafræði um þekkingarsetur sem 3M: miðpunkt, miðlara, mótor í þeim tilgangi að auka hæfni setra til að vinna nærsamfélagi sínu til hagsbóta. Verkefnið fjallar um hvernig setur geta þróað starfsemi sína til að verða leiðandi afl í samfélaginu; hvati fyrir þá sem þess þurfa; stuðlað að samstarfi og verið miðpunktur þangað sem allir geta leitað.
Á haustmánuðum 2018 var haldinn rýnihópur í Nýheimum þar sem íbúar greindu hvaða hæfni setrið og starfsfólk þess þarf að búa yfir til að verða 3M fyrir okkar samfélag. Niðurstöður þess voru að mikilvægt sé að leggja áherslu á rannsóknarhæfni, stjórnunar- og skipulagshæfni og miðlunar- og markaðshæfni. Álíka rýnihópar voru framkvæmdir í öllum samstarfslöndunum og mótaði hvert setur kennsluefni fyrir sín áhersluatriði. Kennsluefni frá öllum þátttökuaðilum var sett saman í handbók sem aðgengileg er hér að neðan.
Hugrún Harpa og Kristín Vala tóku þátt í námskeiði og verkefnafundi KNOW HUBs í Írlandi í september 2019. Á námskeiðinu var handbókin prófuð með fulltrúum allra samstarfsaðila. Námsefnið var þróað áfram og staðfært fyrir hvert samfélag. Með það í huga hvernig verkefnið gæti nýst samfélaginu okkar sem best vann Nýheimar þekkingarsetur að þróun valdeflandi námskeiðs fyrir ungt fólk.
Í desember 2019 var námskeiðið Öflug ung forysta haldið fyrir fulltrúa ungmenna á svæðinu sem starfa í Ungmennaráði Hornafjarðar og Nemendaráði FAS. Námskeiðið stóð yfir tvær kvöldstundir og var allt byggt á efni úr handbók verkefnisins. Með ábendingum þátttakenda var annað námskeið þróað og haldið fyrir öll ungmenni á aldrinum 16-20 ára á Hornafirði. Það námskeið hlaut nafnið Hittu í mark!, var allt byggt upp á handbókinni og stóð yfir um sex vikur, með þremur hópfundum og fimm einstaklingsfundum, þá var einnig notað lokað vefsvæði til miðlunar upplýsinga og samskipta sem er í eigu verkefnisins.
Afurðir KNOW HUBs verkefnisins eru eftirfarandi:
Greinargerð um stöðu þekkingarsetra í samstarfslöndunum, þar sem 3M-kenningin er kynnt og greint frá góðum dæmum um 3M virkni setra.
Handbók verkefnisins inniheldur kennsluefni um 20 lykilhæfniþætti sem samstarfsaðilarnir þróuðu út frá samsköpunarfundi með íbúum síns nærsamfélags þar sem farið var yfir hvernig setrin gætu þróað hæfni starfsfólks síns til að mæta betur þörfum samfélagsins. Hæfniþættir þessarar handbókar eru mjög fjölbreyttir og aðlögunarhæfni þeirra mikil. Handbókinn er góður grunnur að hverslags valdeflandi námskeiði, hvort sem er fyrir starfsmenn setra eða sambærilegra stofnana eða íbúa.
Handbókin er hér á íslensku en hana er einnig að finna á íslensku og ensku á slóðinni nyheimar.is/know-hubs/ og á tungumálum allra samstarfsaðila verkefnisins á know-hubs.eu.
Landsskýrsla Íslands í verkefninu segir frá áherslum Nýheima þekkingarseturs á ungt fólk og í þeim greinir frá tveimur valdeflandi námskeiðum sem setrið hélt á Höfn fyrir ungt fólk, Öflug ung forysta í desember 2019 og Hittur í mark! í febrúar og mars 2020.
Verkefnastjórar voru Hugrún Harpa og Kristín Vala